1Kraftur minn er þrotinn,
dagar mínir taldir,
gröfin bíður mín.
2Já, ég er hafður að spotti
og bitur þreyja augu mín nóttina.
3Settu veð fyrir mig hjá þér,
hver mundi annars ganga í ábyrgð fyrir mig?
4Þar sem þú varnaðir hjörtum þeirra skilnings
muntu ekki veita þeim sigur.
5Vinum er boðið til að skipta eign
en augu barnanna slævast.
6Hann hefur gert mig að athlægi meðal fólksins,
menn hrækja í andlit mitt.
7Auga mitt varð dapurt af sorg
og allir limir mínir urðu sem skuggi.
8Heiðarlegt fólk hryllir við þessu
og hinum hreina ofbýður guðleysinginn.
9Hinn réttláti þræðir veg sinn
og sá sem hefur flekklausar hendur styrkist.
10Þótt þér komið allir hingað aftur
finn ég engan vitran meðal yðar.
11Dagar mínir eru liðnir,
fyrirætlanir mínar sundurtættar,
það sem mér lá á hjarta.
12Nóttin varð mér dagur,
birta kemur úr myrkri.
13Hvað á ég í vændum?
Undirheimar verða bústaður minn,
ég breiði út hvílu mína í myrkri,
14ég segi við gröfina: „Þú ert faðir minn,“
við maðkinn: „Þú ert móðir mín og systir.“
15Hvar er þá von mín?
Von mín, hver eygir hana?
16Fer hún með mér til undirheima?
Hnígum við saman í duftið?