Tóbías fangar fisk

1 Og hún hætti að gráta.
2 Þeir lögðu af stað, drengurinn og engillinn, og hundurinn fór á eftir Tóbíasi og elti þá. Þeir ferðuðust saman og við sólsetur fyrsta kvöldið áðu þeir við Tígrisfljót. 3 Drengurinn fór ofan að ánni til að þvo fæturna í fljótinu. Þá stökk risavaxinn fiskur upp úr ánni og ætlaði að bíta fótinn af unga manninum sem veinaði upp yfir sig. 4 En engillinn sagði við unglinginn: „Gríptu fiskinn og haltu honum fast!“ Unglingurinn greip fiskinn og bar hann á land. 5 „Slægðu fiskinn,“ hélt engillinn áfram, „og taktu gallið, hjartað og lifrina og hirtu það en hentu öðru innvolsi. Gallið, hjartað og lifrin eru nytsöm lyf.“ 6 Unglingurinn slægði fiskinn og tók gallið, hjartað og lifrina. Þeir steiktu sumt af fiskinum og átu en annað söltuðu þeir og geymdu.
Þeir héldu áfram för sinni og nálguðust Medíu. 7 Þá sagði unglingurinn við engilinn: „Asaría, bróðir minn. Hvers konar lyf er að finna í hjarta, lifur og galli fisksins?“
8 Hann svaraði: „Hjarta og lifur fisksins má brenna ef karl eða kona verður fyrir ásókn ára eða ills anda. Það sem sækir að flýr þá reykinn og lætur þau í friði um alla framtíð. 9 Gallinu má smyrja í augu manns sem fengið hefur hvítar himnur á þau. Síðan má blása á himnurnar og læknast þá augun.“

Á leiðinni til Ekbatana

10 Er þeir voru komnir inn í Medíu og í nánd við Ekbatana 11 sagði Rafael við unglinginn: „Tóbías, bróðir minn.“ „Já,“ svaraði hann og engillinn hélt áfram: „Í nótt ber okkur að gista hjá Ragúel. Hann er ættingi þinn og á dóttur sem heitir Sara. 12 Að henni frátalinni á hann hvorki son né dóttur. Það stendur þér nær en öllum öðrum mönnum að kvænast henni og einnig átt þú rétt á að erfa eignir föður hennar. Stúlkan er skynsöm, hugrökk og bráðfalleg og faðir hennar vænsti maður. 13 Þér ber réttur til að ganga að eiga hana. Hlustaðu nú á mig, bróðir. Í kvöld skal ég tala við föður stúlkunnar um að hann gefi þér hana að brúði. Þegar við svo komum aftur frá Rages þá höldum við brúðkaupið. Ég er fullviss um að Ragúel getur ekki meinað þér að kvænast henni eða lofað hana öðrum því að þá yrði hann dauðasekur samkvæmt ákvæðum Mósebókar. Hann veit vel að framar öllum öðrum ber þér réttur til að kvænast dóttur hans. Hlustaðu á mig, bróðir. Við skulum tala um stúlkuna í kvöld og biðja hennar þér til handa. Og þegar við snúum aftur frá Rages þá munum við sækja hana og fara með hana heim til þín.“
14 „Asaría, bróðir minn,“ svaraði Tóbías Rafael. „Ég hef frétt að hún hafi þegar gifst sjö sinnum og að allir mennirnir hafi dáið á brúðkaupsnóttina og það um leið og þeir gengu inn í herbergið til hennar. Ég hef heyrt sagt að illur andi hafi deytt þá. 15 Hann gerir henni ekki mein en hann drepur hvern þann sem reynir að nálgast hana. Þetta skelfir mig. Ég er einkasonur föður míns og dæi ég mundi harmur draga föður minn og móður ofan í gröfina. Annan son eiga þau ekki til að sjá um greftran sína.“ 16 Engillinn svaraði: „Manstu ekki eftir fyrirmælum föður þíns um að þú tækir þér eiginkonu af ætt hans? Hlustaðu nú á mig, bróðir. Hafðu engar áhyggjur af þessum illa anda. Kvænstu Söru. Ég veit að hún mun gefin þér strax í kvöld. 17 Þegar þú svo gengur inn í brúðarherbergið skaltu taka hjarta fisksins og hluta af lifrinni og leggja á glóandi reykelsi og lykt mun leggja þar af. 18 Þegar illi andinn finnur lyktina mun hann flýja og aldrei nokkurn tíma sýna sig framar nærri Söru. En áður en þú hefur samræði við hana skuluð þið bæði standa upp og ákalla Drottin himinsins og biðja hann um miskunn og hjálp. Vertu óhræddur. Hún hefur verið ætluð þér frá því fyrir upphaf tímanna og það ert þú sem munt frelsa hana. Hún mun fara með þér og ég ætla að hún muni fæða þér börn sem munu verða þér sem bræður. Hafðu engar áhyggjur.“
Þegar Tóbías heyrði orð Rafaels og skildi að Sara var systir hans, þar sem hún var af ætt og kynkvísl föður hans, fékk hann mikla ást á henni og var með hugann allan hjá henni.