Asa konungur Júda

1 Asa gerði það sem gott var og rétt í augum Drottins, Guðs síns. 2 Hann lét fjarlægja útlend ölturu og fórnarhæðirnar, braut merkisteinana og hjó niður Asérustólpana. 3 Hann skipaði Júdamönnum að leita Drottins, Guðs feðra sinna, og framfylgja lögmálinu og boðorðunum. 4 Þar sem hann fjarlægði fórnarhæðirnar og reykelsisölturun úr öllum borgum Júda naut ríkið friðar undir hans stjórn.
5 Friður var í landinu og enginn fór með stríð á hendur Asa á þessum árum og því gat hann reist víggirtar borgir í Júda. Þar sem Drottinn hafði veitt honum frið 6 sagði hann við Júdamenn: „Við skulum víggirða þessar borgir með því að reisa umhverfis þær múra, turna og hlið[ með slagbröndum á meðan við höfum landið enn á valdi okkar. Af því að við höfum leitað Drottins, Guðs okkar, heils hugar veitti hann okkur frið á alla vegu.“ Þeir tóku því að reisa og varð vel ágengt.
7 Asa hafði þrjú hundruð þúsund manna herlið frá Júda, vopnað skjöldum og lensum, og tvö hundruð og áttatíu þúsund manna herlið frá Benjamín, vopnað léttum skjöldum og bogum. Allt voru þetta hraustir hermenn.
8 Serak frá Kús[ hélt gegn þeim með milljón manna her og þrjú hundruð stríðsvagna.
Þegar hann var kominn til Maresa 9 hélt Asa á móti honum. Þeir fylktu til orrustu í dalnum norðan við Maresa. 10 Þá bað Asa til Drottins, Guðs síns, og sagði: „Drottinn, enginn getur hjálpað veikum gegn sterkum eins og þú. Hjálpa þú okkur, Drottinn, Guð okkar, því að við styðjumst við þig. Í þínu nafni höldum við gegn þessum fjölmenna her. Drottinn, þú ert Guð okkar, enginn maður getur hindrað þig.“
11 Þá sigraði Drottinn Kússítana frammi fyrir Asa og Júdamönnum og Kússítarnir lögðu á flótta. 12 Asa og hermenn hans ráku flóttann allt til Gerar. Kússítar voru gersigraðir og biðu þess ekki bætur. Þeir guldu afhroð fyrir Drottni og her hans. Júdamenn tóku gífurlegt herfang. 13 Þeir réðust á allar borgirnar umhverfis Gerar því að Drottinn hafði fyllt þær ótta. Júdamenn rændu allar borgirnar því að þar var mikinn ránsfeng að hafa. 14 Þeir réðust einnig á þá sem áttu nautgripi og tóku með sér fjölda sauðfjár og úlfalda. Því næst sneru þeir aftur heim til Jerúsalem.