1Hinir ranglátu flýja þótt enginn elti þá
en hinir réttlátu eru óttalausir eins og ungt ljón.
2Þegar uppreisn verður í landinu gerast þar margir höfðingjar
en meðal skynsamra og hygginna manna mun góð skipan lengi standa.
3Maður sem er fátækur og situr á hlut snauðra
er eins og steypiregn sem spillir uppskeru.
4Þeir sem hafna fræðslu hrósa ranglátum
en þeir sem fræðsluna þiggja berjast gegn þeim.
5Illmenni skilja ekki hvað rétt er
en þeir sem leita Drottins skilja allt.
6Betri er fátækur maður og ráðvandur
en ríkur maður og undirförull.
7Sá sem varðveitir kenninguna er hygginn sonur
en sá sem leggur lag sitt við óhófsmenn gerir föður sínum smán.
8Sá sem eykur auð sinn með fjárleigu og vöxtum
safnar honum handa þeim sem líknar fátækum.
9Daufheyrist maður við lögmálinu
verður bæn hans andstyggð.
10Sá sem tælir heiðarlega menn á glapstigu
fellur sjálfur í gröf sína
en ráðvöndum mun vel farnast.
11Ríkur maður þykist vitur
en snauður maður og hygginn sér við honum.
12Þegar hinir réttlátu fagna er mikið um dýrðir
en þegar vegur ranglátra vex forða menn sér.
13Sá sem dylur yfirsjónir sínar verður ekki lánsamur
en sá sem játar þær og lætur af þeim hlýtur miskunn.
14Sæll er sá maður sem ávallt er var um sig
en sá sem herðir hjarta sitt fellur í ógæfu.
15Eins og grenjandi ljón og gráðugur björn,
svo er ranglátur drottnari yfir magnlítilli þjóð.
16Skilningssljór höfðingi er harður kúgari
en langlífur verður sá sem hatar rangfenginn auð.
17Sá maður, sem blóðsök hvílir á,
er á flótta fram á grafarbakkann,
enginn aðstoði hann.
18Sá sem breytir ráðvandlega mun frelsast
en sá fellur í gryfju sem beitir undirferli.
19Sá sem yrkir land sitt mettast af brauði
en sá sem sækist eftir hégóma mettast af fátækt.
20Áreiðanlegur maður blessast ríkulega
en sá sem fljótt vill verða ríkur sleppur ekki við refsingu.
21Hlutdrægni er röng
en þó fremja menn ranglæti fyrir einn brauðbita.
22 Nískur maður er á þönum eftir auði
og veit ekki að örbirgðin mun elta hann uppi.
23 Sá sem ávítar mann öðlast síðar meiri hylli
en tungumjúkur smjaðrari.
24 Sá sem rænir foreldra sína og segir: „Það er engin synd,“
er lagsbróðir eyðandans.
25 Ágjarn maður vekur deilur
en þeim sem treystir Drottni farnast vel.
26 Sá sem treystir á eigið hyggjuvit er heimskingi
en sá sem breytir viturlega mun bjargast.
27 Sá sem gefur fátækum líður engan skort
en þeim sem byrgir augu sín verður víða formælt.
28 Þegar vegur ranglátra vex fela menn sig
en þegar þeir tortímast fjölgar réttlátum.