Um konur

1Ver eigi afbrýðisamur konunni við barm þér,
það kennir henni aðeins að gera þér illt.
2 Gefstu engri konu á vald,
þá verður þú viljalaust verkfæri hennar.
3 Leita ekki fundar við léttúðuga konu,
annars kanntu að ánetjast henni.
4 Gjör þér ekki títt um tónlistarkonu
svo að töfrar hennar fangi eigi hug þinn.
5 Einblíndu eigi á meyna,
þá kanntu að þurfa þungar bætur að gjalda.
6 Legg ekki lag þitt við skækjur
því þá eyðast þér eigur allar.
7 Vertu ekki á gægjum á götum borgar,
eigra eigi um fáfarnar slóðir.
8 Festu ei augu á fagurri konu,
starðu ekki á þokka konu annars manns.
Fegurð konu hefur margan leitt afvega,
hún kveikir ástarbríma sem bál.
9 Sestu ekki til borðs með giftri konu,
sit eigi með henni að sumbli,
þú gætir hrifist af henni
og það mun valda þér válegum dauða.

Um vináttu

10Yfirgef eigi aldavin,
annar mun aldrei fylla skarð hans.
Nýr vinur er sem nýtt vín,
þú nýtur þess því meir sem það eldist.
11 Lít frama syndara eigi öfundaraugum,
ekki veistu nema lífi hans ljúki með hörmung.
12 Gleðstu eigi yfir því sem guðlausa gleður,
mundu að þeir eru sekir ævina alla.
13 Forðastu þann sem hefur vald til að deyða,
þá þarft þú ekki að óttast um líf þitt.
Þurfirðu að vitja hans gæt þín þá vel,
ella kann hann að deyða þig.
Vit að þú gengur á milli gildra
eins og þú værir vörður yst á borgarmúr.
14 Veg og met náunga þinn sem fremst þú megnar
og ráðfær þig síðan við vitra menn.
15 Skipstu á skoðunum við hyggindamenn
og allt þitt tal lúti að lögmáli Hins hæsta.
16 Ráðvandir menn séu borðnautar þínir,
ótti Drottins sé þitt fremsta hrósunarefni.

Um leiðtoga og valdhafa

17Handaverk hagleiksmanna færa þeim lof
og orð leiðtoga lýðsins birta speki hans.
18 Borgin skelfist málgefinn mann
og orðhákur vekur hatur fólksins.