Tíunda plágan boðuð

1 Drottinn sagði við Móse: „Ég ætla að senda enn eina plágu yfir faraó og Egypta. Eftir það leyfir hann ykkur að fara héðan. Þegar hann veitir ykkur fararleyfi mun hann jafnvel reka ykkur héðan. 2 Brýndu nú fyrir fólkinu að karlar og konur biðji kunningja sína um gull- og silfurgripi.“ 3 Drottinn hafði látið fólkið njóta velvildar. Móse var mikils metinn maður í Egyptalandi, bæði af þjónum faraós og almenningi.
4 Móse sagði: „Svo segir Drottinn: Um miðnætti geng ég sjálfur mitt í gegnum Egyptaland. 5 Þá mun sérhver frumburður í Egyptalandi deyja, frá frumburði faraós, sem situr í hásæti sínu, til frumburðar ambáttarinnar, sem situr við kvörnina, ásamt öllum frumburðum búfjár. 6 Verður þá slíkt harmakvein um allt Egyptaland að annað eins hefur aldrei heyrst né mun heyrast. 7 En ekki mun svo mikið sem hundur gelta að Ísraelsmönnum, hvorki mönnum né skepnum, svo að þið komist að raun um að Drottinn gerir greinarmun á Egyptum og Ísraelsmönnum. 8 Allir þjónar þínir munu þá koma hingað til mín, falla fram fyrir mér og segja: Far burt, þú sjálfur og allt fólkið sem fylgir þér. Síðan fer ég.“ Því næst gekk Móse út frá faraó og var hinn reiðasti.
9 Drottinn sagði við Móse: „Faraó mun ekki hlusta á ykkur og af því leiðir að stórmerki mín verða mörg í Egyptalandi.“ Móse og Aron gerðu öll þessi stórmerki fyrir augum faraós en Drottinn herti hjarta hans svo að hann leyfði Ísraelsmönnum ekki að fara úr landi sínu.