Marklaust tal vinanna

1Allt þetta sá ég með eigin augum
og heyrði með eigin eyrum og skildi,
2það sem þér vitið veit ég einnig
og stend yður ekki að baki.
3En ég ætla að tala við Hinn almáttka,
ég ætla að verja mál mitt frammi fyrir Guði.
4En þér hyljið sannleikann lygi
og eruð allir ónýtir læknar.
5Óskandi væri að þér þegðuð,
það mætti meta yður til visku.
6Hlýðið nú á vörn mína,
hlustið á rökin af vörum mínum.
7Ætlið þér að verja Guð með rangfærslum,
svara fyrir hann með lygi?
8Viljið þér taka málstað hans,
vera málsvarar Guðs?
9Getur farið vel er hann yfirheyrir yður
eða getið þér blekkt hann eins og maður blekkir mann?
10Hann mundi ávíta yður harðlega
væruð þér hlutdrægir á laun.
11Mun hátign hans ekki skelfa yður,
ótti við hann ekki yfirþyrma yður?
12Átölur yðar eru aska,
svör yðar leir.
13Þagnið nú því að ég ætla að tala
og komi svo yfir mig hvað sem verða vill.
14Ég stofna sjálfum mér í hættu
og legg líf mitt undir.
15Hann sviptir mig lífi, ég vænti einskis,
vil aðeins réttlæta breytni mína frammi fyrir honum.
16Það getur orðið mér til bjargar
því að enginn óguðlegur kemur fyrir auglit hans.
17Hlustið nú vel á ræðu mína,
leggið hlustir við málflutningi mínum.
18Nú legg ég mál mitt fyrir,
ég veit að ég hef á réttu að standa.
19Gæti nokkur ákært mig
vildi ég þagna og deyja.
20Hlífðu mér aðeins við þessu tvennu,
þá þyrfti ég ekki að dyljast fyrir þér:
21Léttu hendi þinni af mér
og óttinn við þig skelfi mig ekki.
22 Kallaðu mig fyrir og ég mun svara
en ef ég tala svarar þú.
23 Hve margar eru misgjörðir mínar og syndir?
Gerðu mér grein fyrir afbroti mínu og synd.
24 Hvers vegna hylur þú auglit þitt
og lítur á mig sem óvin þinn?
25 Ætlarðu að skelfa skrælnað laufblað,
ofsækja visinn reyr
26 þar sem þú gerir mér bitra kosti
og lætur mig gjalda æskusynda minna?
27 Þú leggur fætur mína í stokk,
gefur gætur að vegum mínum
og markar hvert fótspor mitt.
28 Maðurinn grotnar eins og maðksmoginn viður,
eins og mölétin flík.