Egyptar drukkna, Ísraelsmenn fara yfir hafið

1 En yfir hinum guðlausu grúfði vægðarlaus reiði Guðs þar til yfir lauk, enda sá hann fyrir illvirkin sem þeir áttu eftir að fremja. 2 Þeir áttu eftir að sjá sig um hönd og veita Ísraelsmönnum eftirför þótt þeir hefðu veitt þeim fararleyfi og stuðlað að brottför þeirra. 3 Meðan þeir voru enn þjakaðir sorg og sátu harmþrungnir við grafir hinna látnu náði ný fásinna tökum á þeim. Þeir tóku að ofsækja og elta eins og strokumenn þá sem þeir höfðu rétt áður rekið burt og beðið að fara. 4 Makleg örlög leiddu þá til þessara örþrifaráða og fengu þá til að gleyma því sem liðið var. Það var til þess að þeir tækju út til fulls þá hegningu sem þeir höfðu unnið til. 5 Lýður þinn átti að hljóta undursamlega för en hinir að mæta dauðanum með óvenjulegum hætti.
6 Allt eðli sköpunarinnar tók stakkaskiptum að nýju frá grunni og hlýddi skipunum þínum til þess að börn þín varðveittust ósködduð. 7 Menn sáu ský leggjast yfir herbúðirnar og fast land reis þar sem fyrr var þakið vatni. Rauðahafið varð greiðfær vegur og ólgandi sjórinn grænn völlur. 8 Þar fór yfir allur lýðurinn sem hönd þín hlífði og séð hafði dásamleg undur. 9 Þeir voru eins og hestar í haga og léku sér sem lömb og vegsömuðu þig, Drottinn, sem frelsaðir þá. 10 Því að enn var þeim það hugstætt sem gerst hafði í útlegðinni. Mý hafði sprottið upp úr jörðinni í stað þess að kvikna á eðlilegan hátt. Fljótið spjó froskamergð í stað þess að fóstra lagardýr. 11 Þegar þá síðar langaði í eitthvað gómsætt að eta og þeir báðu um það fengu þeir að sjá fugla verða til á nýjan hátt: 12 Lynghænsni stigu upp úr hafinu til að seðja hungur þeirra.
13 Á syndurum dundu refsingar en undan þeim fóru fyrirboðar, miklar eldingar. Maklega guldu þeir eigin illsku því að þeir höfðu alið með sér hatramman hug til útlendinga. 14 Aðrir hafa úthýst ókunnum aðkomumönnum en þessir menn þrælkuðu gesti sem gert höfðu vel til þeirra. 15 Og ekki nóg með það. Hinir, sem tóku útlendingum illa, munu vissulega þurfa að svara fyrir það 16 en þessir fögnuðu þeim með veisluhöldum og þjökuðu þá síðan með hræðilegu erfiði er þeir höfðu þegar öðlast þegnréttindi. 17 Þeir voru líka slegnir blindu eins og hinir við dyr hins réttláta þegar þeir, umluktir niðamyrkri, leituðu inngöngu hver um sínar dyr.
18 Frumefnin geta sjálf komið fram í nýjum samböndum eins og stef breytir um takt þegar leikið er á strengi en hljómurinn helst ávallt hinn sami. Þetta má ljóslega sjá með því að grandskoða það sem þá gerðist. 19 Landdýr urðu að lagardýrum og sunddýr gengu á land. 20 Eldurinn magnaðist að eigin krafti í vatninu og vatnið gleymdi eðli sínu að slökkva. 21 Þó eyddu logarnir hvorki holdi auðsærðra dýra, sem óðu eldinn, né leystist himnesk fæðan upp, sem er hrími líkust, þótt hún bráðni auðveldlega. 22 Já, á allan hátt hefur þú, Drottinn, gert lýð þinn mikinn og vegsamlegan. Þú hefur aldrei afrækt hann og ávallt og alls staðar veitt honum fulltingi.