Hiskía konungur Júda

1 Hiskía var tuttugu og fimm ára þegar hann varð konungur og ríkti tuttugu og níu ár í Jerúsalem. Móðir hans hét Abía og var Sakaríadóttir. 2 Hann gerði það sem rétt var í augum Drottins alveg eins og Davíð, forfaðir hans.

Hreinsun musterisins

3 Það var hann sem opnaði hliðin að húsi Drottins og lagfærði þau í fyrsta mánuði fyrsta stjórnarárs síns. 4 Hann lét sækja prestana og Levítana, safnaði þeim saman á austurtorginu 5 og ávarpaði þá:
„Levítar, hlýðið á mig. Helgið ykkur þegar í stað og helgið því næst hús Drottins, Guðs feðra ykkar. Fjarlægið allt óhreint úr helgidóminum. 6 Feður okkar voru svikulir og gerðu það sem illt var í augum Drottins, Guðs okkar. Þeir brugðust honum, sneru sér frá bústað Drottins og sneru við honum baki. 7 Þeir lokuðu jafnvel hliðunum að forsalnum, slökktu á lömpunum og færðu Guði Ísraels hvorki reykelsisfórnir né brennifórnir í helgidóminum. 8 Þess vegna reiddist Drottinn íbúum Júda og Jerúsalem. Það sem hann gerði þeim hefur valdið skelfingu og hrolli og orðið þeim til háðungar eins og þið getið séð með eigin augum. 9 Feður okkar féllu fyrir sverðseggjum og synir okkar, dætur og konur voru flutt í útlegð. 10 Nú hyggst ég gera sáttmála við Drottin, Guð Ísraels, svo að brennandi reiði hans snúi frá okkur. 11 Synir mínir, verið ekki aðgerðalausir því að Drottinn hefur valið ykkur til að þjóna frammi fyrir augliti sínu og vera í þjónustu hans og færa honum reykelsisfórnir.“
12 Þá stóðu þessir Levítar upp: Mahat Amasaíson og Jóel Asarjason, en þeir voru niðjar Kahats, Kís Abdíson og Asarja Jehallelelsson, sem voru niðjar Merarí, Jóa Simmason og Eden Jóason, niðjar Gersons, 13 Simrí og Jehíel, niðjar Elísafans, Sakaría og Mattanja, niðjar Asafs, 14 Jehíel og Símeí, niðjar Hemans, og Semaja og Ússíel, niðjar Jedútúns. 15 Þegar þeir höfðu safnað saman ættbræðrum sínum helguðu þeir sig. Því næst fóru þeir að boði konungs, sem var reist á fyrirmælum Drottins, til þess að hreinsa hús Drottins. 16 Prestarnir gengu inn í innri herbergi húss Drottins til þess að hreinsa þau. Þeir fóru með allt óhreint, sem þeir fundu í musteri Drottins, út í forgarðinn. Þar tóku Levítarnir við því og fluttu það út fyrir borgina, í Kedrondal.
17 Þeir hófu að helga húsið á fyrsta degi fyrsta mánaðarins og á áttunda degi voru þeir komnir að forsal Drottins. Þeir helguðu hús Drottins á átta dögum þannig að þeir luku því á sextánda degi fyrsta mánaðarins. 18 Því næst gengu þeir inn til Hiskía konungs og sögðu: „Við höfum hreinsað allt hús Drottins. Brennifórnaraltarið ásamt öllum áhöldum þess, borðin fyrir skoðunarbrauðin og öll áhöld þess 19 og öll þau áhöld, sem Akas konungur vanhelgaði með sviksemi sinni á stjórnartíma sínum, höfum við lagfært og helgað. Þau eru nú frammi fyrir altari Drottins.“

Endurvígsla musterisins

20 Morguninn eftir safnaði Hiskía konungur saman leiðtogum borgarinnar og hélt síðan upp til húss Drottins. 21 Þeir tóku með sér sjö naut, sjö hrúta, sjö lömb og sjö geithafra sem syndafórn fyrir konungsfjölskylduna, helgidóminn og Júdamenn. Konungurinn gaf prestunum, niðjum Arons, fyrirmæli um að fórna þeim á altari Drottins. 22 Fyrst var nautunum slátrað og tóku prestarnir blóðið og dreyptu því á altarið. Því næst var hrútunum slátrað og blóðinu dreypt á altarið, þá lömbunum og blóðinu dreypt á altarið. 23 Að lokum voru geithafrarnir, sem ætlaðir voru til syndafórnar, leiddir fyrir konunginn og söfnuðinn og lögðu þeir hendur sínar á þá.[ 24 Því næst slátruðu prestarnir þeim og dreyptu blóðinu sem syndafórn á altarið til að friðþægja fyrir allan Ísrael því að konungurinn hafði ákveðið að brennifórnin og syndafórnin skyldu vera fyrir alla Ísraelsmenn.
25 Konungur fylkti Levítunum í húsi Drottins með málmgjöll, hörpur og gígjur í höndum, samkvæmt fyrirmælum Davíðs, Gaðs, hins konunglega sjáanda, og Natans spámanns. Þessi fyrirmæli voru frá Drottni, flutt af spámönnum hans. 26 Levítarnir tóku sér nú stöðu og héldu á hljóðfærum Davíðs en prestarnir á lúðrunum.
27 Þá gaf Hiskía skipun um að færa brennifórnina á altarinu. Um leið og fórnarathöfnin byrjaði hófst söngur Drottni til dýrðar ásamt lúðrablæstri með undirleik á hljóðfæri Davíðs, konungs Ísraels. 28 Allur söfnuðurinn féll fram á auglit sitt á meðan söngurinn var sunginn og lúðrarnir voru þeyttir allt til loka fórnarathafnarinnar. 29 Þegar fórninni var lokið beygði konungur og allir, sem með honum voru, kné sín og féllu fram. 30 Þá skipaði Hiskía konungur og leiðtogarnir Levítunum að lofa Drottin með orðum Davíðs og Asafs sjáanda. Þeir fluttu lofgjörðina með gleði, beygðu kné sín og féllu fram.
31 Því næst tók Hiskía til máls og sagði: „Nú hafið þið þegið vígslu til þjónustu við Drottin. Gangið fram og komið með sláturfórnir og þakkarfórnir til húss Drottins.“ Þá kom söfnuðurinn með sláturfórnir og þakkarfórnir og auk þess færðu sumir brennifórnir af fúsum og frjálsum vilja.
32 Brennifórnirnar, sem söfnuðurinn kom með, töldust vera: sjötíu naut, hundrað hrútar og tvö hundruð lömb. Allt þetta var fært Drottni í brennifórn. 33 Helgigjafirnar voru sex hundruð nautfjár og þrjú þúsund sauðfjár. 34 En prestarnir voru of fáir svo að þeir gátu ekki flegið öll dýrin sem ætluð voru til brennifórnar. Þess vegna hjálpuðu Levítarnir, embættisbræður þeirra, þeim við að ljúka verkinu þar til fleiri prestar höfðu helgað sig því að Levítarnir voru enn samviskusamari við helgunina en prestarnir. 35 Brennifórnirnar, sem færa átti, voru mjög margar, auk feiti heillafórnanna og dreypifórnanna sem fylgdu brennifórnunum. Þannig var guðsþjónustan í húsi Drottins hafin að nýju. 36 Hiskía og allt fólkið gladdist yfir því sem Guð hafði gert fyrir fólkið og hversu stuttan tíma það hafði tekið.