1 Svo er annar sem hyggur á sjóferð. Þegar hann leggur til hafs um ýfðar öldur, þá ákallar hann sér til hjálpar feysknari við en farið sem ber hann. 2 Farið hefur gróðafíknin hugsað upp en listin sem smíðaði það var spekin. 3 Forsjón þín, faðir, stýrir för þess. Þú hefur jafnvel lagt veg um hafið og öruggan stíg um öldurnar. 4 Þannig sýnir þú að þú megnar að bjarga úr hverjum háska svo að einnig sá sem ekki kann að sigla áræði um borð. 5 Þú vilt ekki að verk speki þinnar séu ekki nýtt. Þess vegna treysta menn vesælustu fleytum fyrir lífi sínu og hafa komist af þó að þeir færu um sollinn sæ á fleka. 6 Í fyrndinni, þegar dramblátu risarnir fórust, sást þú til þess að von heimsins komst undan á fleyi og lét framtíðinni eftir afkomendur. 7 Blessaður er sá viður sem stuðlar að réttlæti þínu 8 en bölvaður er viðurinn, sem gerður er af manna höndum, og sá sem gerði hann. Hann telgdi myndina og hið forgengilega var kallað guð. 9 Guð hefur sömu andstyggð á guðleysingjanum og guðvana verkum hans. 10 Báðum verður refsað, smíðinni og smiðnum. 11 Hegning mun koma yfir skurðgoð heiðingjanna. Þau heyrðu til sköpun Guðs en urðu viðurstyggð og ásteytingarsteinn sálum manna og snara um fætur fávísra.

Upphaf hjáguðadýrkunar

12 Upphaf hjáguðadýrkunar var að menn hugsuðu upp skurðgoð. Þegar þau urðu til spilltu þau lífi manna. 13 Enda voru þau hvorki frá upphafi né munu þau vara um aldur. 14 Fyrir tóma ímyndun komu þau í heiminn og þess vegna er þeim búinn skjótur endir.
15 Faðir, sem bugaðist af sorg yfir ótímabærum missi barns síns, lét gera mynd af því og tók nú að tigna hinn látna sem guð. Síðan setti hann hjúum sínum launhelgar og vígslusiði. 16 Með tímanum festist þessi guðlausi siður og var haldinn sem lög.
Einvaldar buðu dýrkun á skurðlíkneskjum 17 þar sem þeir voru sumir hverjir svo fjarri. Menn gátu ekki auðsýnt einvaldinum sjálfum lotningu sína. Þess vegna gerðu þeir þekkjanlega mynd af konunginum, sem tigna bar, til þess að þeir gætu kappsamlega smjaðrað fyrir honum fjarstöddum eins og hann væri nærstaddur. 18 Metnaðargirnd listamannsins laðaði jafnvel fávísa til ákafrar þátttöku í dýrkuninni, 19 enda neytti hann hæfni sinnar og fegraði myndina, vísast til þess að þóknast valdhafanum. 20 Yndisþokki myndarinnar hreif menn svo að þeir álitu þann heilagan sem litlu fyrr hafði verið tignaður sem maður.
21 Þannig beygðu þeir sig undir ógæfu eða harðstjórn með því að gefa stokkum og steinum það nafn sem aðeins einum ber. Þetta varð mönnum til falls.

Afleiðing hjáguðadýrkunar

22 Ekki sat við það að þeir færu villir vegar um þekkinguna á Guði. Vanþekking þeirra leiddi af sér friðvana líferni en samt nefna þeir slíkt böl frið. 23 Þegar þeir iðka barnamorð við helgihald og launhelgar eða halda tryllingslegar og annarlegar óhófsveislur, 24 þá er hvorki líferni þeirra né hjúskapur framar óflekkaður. Hver myrðir annan með svikum og svívirðir hann með hjúskaparbroti. 25 Alls staðar veður uppi blóð og morð, þjófnaður og vélabrögð, spilling, sviksemi, róstur, meinsæri, 26 áreitni við góða menn, vanþakklæti, saurgun sálna, kynvilla, hjónabandsriftingar, hórdómur og saurlífi. 27 Dýrkun skurðgoða, sem ekki eru nefnandi á nafn, er upphaf alls ills, orsök og takmark. 28 Annaðhvort æða menn í ofsakæti, fara með upplogna spádóma, lifa ranglátlega eða tvínóna ekki við að fremja meinsæri. 29 Þeir treysta lífvana goðum og búast ekki við endurgjaldi fyrir ranga eiða. 30 En réttláta refsingu munu þeir hljóta fyrir hvort tveggja, bæði rangar hugmyndir um Guð og fyrir að aðhyllast skurðgoðin, sverja meinsæri með svikum og fyrirlíta hið heilaga. 31 Enda er það ekki máttur þeirra sem svarið er við sem ætíð kemur niður á misgjörðum ranglátra, heldur réttvís dómur yfir þeim sem syndga.