Lögbókin lesin og skýrð

1 Allt fólkið safnaðist saman eins og einn maður á torginu fyrir framan Vatnshliðið. Fólkið bað Esra fræðimann að koma með bókina sem lögmál Móse var skráð á og Drottinn hafði sett Ísrael.
2 Fyrsta dag sjöunda mánaðarins kom Esra prestur með lögmálið fram fyrir söfnuðinn, karla, konur og alla þá sem skilning höfðu til að hlusta. 3 Esra las upp úr lögmálinu frá birtingu til hádegis fyrir karlmennina, konurnar og þá sem höfðu skilning, á torginu framan við Vatnshliðið. Allt fólkið hlustaði á lestur lögmálsbókarinnar af athygli.
4 Esra fræðimaður stóð á háum trépalli sem gerður hafði verið af þessu tilefni: Hægra megin við hann stóðu Mattitja, Sema, Anaja, Úría, Hilkía og Maaseja en vinstra megin Pedaja, Mísael, Malkía, Hasúm, Hasbaddana, Sakaría og Mesúllam. 5 Esra fræðimaður opnaði bókina fyrir augum alls fólksins því að hann stóð hærra en allt fólkið. Þegar hann opnaði bókina risu allir á fætur.
6 Esra lofaði Drottin, hinn mikla Guð, og allt fólkið rétti upp hendur sínar og svaraði: „Amen, amen.“ Því næst hneigði fólkið sig og féll til jarðar fram á ásjónu sína.
7 Levítarnir Jesúa, Baní, Serebja, Jamín, Akkúb, Sabtaí, Hódía, Maaseja, Kelíta, Asarja, Jósabad, Hanan og Pelaja skýrðu lögmálið fyrir fólkinu sem var kyrrt á sínum stað. 8 Þeir lásu upp úr bókinni, lögmáli Guðs, lögðu það út og skýrðu til þess að fólkið skildi það sem lesið var.
9 Nehemía, sem var landstjóri, Esra fræðimaður og Levítarnir, sem kenndu fólkinu, ávörpuðu allt fólkið og sögðu:
„Þessi dagur er helgaður Drottni, Guði okkar. Syrgið því hvorki né grátið.“
En allt fólkið grét eftir að hafa hlustað á orð lögmálsins.
10 Þá sagði Esra við fólkið:
„Farið nú, snæðið ríkulega máltíð, drekkið sæt vín. Sendið þeim mat sem ekki hafa matbúið því að þessi dagur er helgaður Drottni okkar. Verið því ekki hryggir því að gleði Drottins er styrkur ykkar.“
11 Levítarnir sefuðu fólkið með því að segja:
„Hafið hægt um ykkur því að þessi dagur er heilagur. Verið því ekki hryggir.“
12 Þá fór allt fólkið til að eta og drekka og senda matarskammta. Það hélt mikla gleðihátíð af því að það hafði skilið boðskapinn.

Laufskálahátíð

13 Á öðrum degi söfnuðust ættarhöfðingjar allrar þjóðarinnar, prestarnir og Levítarnir saman hjá Esra fræðimanni til þess að kynnast fyrirmælum lögmálsins. 14 Þá komust þeir að því að það var skráð í lögmálinu, sem Drottinn hafði boðið þeim fyrir munn Móse, að Ísraelsmenn ættu að búa í laufskálum á hátíðinni í sjöunda mánuðinum. 15 Þegar þeir heyrðu þetta létu þeir kunngjöra það og kalla út í öllum borgum sínum og í Jerúsalem:
„Farið upp í fjalllendið og sækið greinar af ræktuðum og villtum olíuviði, myrtu, pálmum og öðrum lauftrjám til að gera laufskála, eins og skráð er.“
16 Fólkið fór, sótti trjágreinar og gerði sér laufskála, hver á sínu húsþaki og í húsagörðum sínum, í forgörðum húss Guðs, á torginu við Vatnshliðið og á torginu við Efraímshliðið. 17 Allur söfnuðurinn, þeir sem snúið höfðu heim úr útlegðinni, gerði laufskála og bjó í þeim. Ísraelsmenn höfðu ekki gert þetta frá því á dögum Jósúa Núnssonar allt til þessa dags. Mikil gleði ríkti 18 og Esra las daglega upp úr lögmálsbók Guðs, frá fyrsta degi til hins síðasta. Hátíðin stóð í sjö daga. Á áttunda degi var hátíðarsamkoma eins og fyrirskipað var.