Mirjam og Aron gegn Móse

1 Mirjam og Aron ávítuðu Móse vegna konunnar frá Kús sem hann hafði tekið sér fyrir eiginkonu. 2 Þau sögðu: „Hefur Drottinn aðeins talað við Móse, hefur hann ekki líka talað við okkur?“ Drottinn hlustaði á þetta. 3 En Móse var hógvær maður, hógværari en nokkur annar á jörðinni.
4 Skyndilega sagði Drottinn við Móse, Aron og Mirjam: „Farið öll þrjú út til samfundatjaldsins.“ Og þau fóru þangað öll þrjú.
5 Þá steig Drottinn niður í skýstólpa, tók sér stöðu við tjalddyrnar og kallaði á Aron og Mirjam. Þau gengu þá bæði fram 6 og hann sagði:
Hlýðið á orð mín.
Sé spámaður meðal yðar
birtist ég honum í sýn,
tala við hann í draumi.
7Þannig fer ég ekki að við Móse, þjón minn,
sem er trúað fyrir allri þjóð minni.
8Ég tala við hann augliti til auglitis
en ekki í gátum,
hann fær að sjá mynd Drottins.
Hvers vegna árædduð þið
að ásaka þjón minn, Móse?

9 Reiði Drottins blossaði upp gegn þeim og hann gekk á brott. 10 Um leið og skýið vék burt frá tjaldinu var Mirjam orðin snjóhvít af holdsveiki. Aron sneri sér að Mirjam og sá að hún var orðin holdsveik. 11 Síðan sagði Aron við Móse: „Æ, herra minn. Láttu þá synd, sem við frömdum af heimsku, ekki koma niður á okkur. 12 Láttu hana ekki verða eins og andvana fóstur sem helmingur holdsins er rotnaður af þegar það kemur úr móðurlífi.“ 13 Þá hrópaði Móse til Drottins og sagði: „Gerðu þetta ekki, læknaðu hana.“ 14 En Drottinn sagði við Móse: „Hefði faðir hennar hrækt framan í hana þyrfti hún þá ekki að bera skömmina í sjö daga? Hún skal vera lokuð inni í sjö daga utan við herbúðirnar. Síðan getur hún komið inn aftur.“
15 Mirjam var því lokuð inni utan herbúðanna í sjö daga. Fólkið lagði ekki af stað fyrr en hún var aftur komin inn í herbúðirnar.
16 Síðan lagði þjóðin af stað frá Haserót og tjaldaði í Paraneyðimörk.