Davíð og Golíat

1 Filistear drógu nú saman hersveitir sínar til bardaga. Þeir söfnuðust saman í Sókó í Júda og settu upp herbúðir sínar í Efes Dammím milli Sókó og Aseka. 2 Sál og Ísraelsmenn söfnuðust þá saman, settu upp búðir í Eikadalnum og bjuggust til orrustu gegn Filisteum. 3 Filistear tóku sér stöðu öðrum megin í fjallinu en Ísraelsmenn hinum megin og var dalurinn á milli þeirra.
4 Þá gekk hólmgöngumaður út úr búðum Filistea. Hann hét Golíat og var frá Gat. Hann var sex og hálf alin á hæð. 5 Hann hafði eirhjálm á höfði og bar hreisturbrynju úr eir sem var fimm þúsund siklar að þyngd. 6 Á leggjum hafði hann brynhosur úr eir og á herðum sér bjúgsverð úr eir. 7 Skaftið á spjóti hans var digurt sem vefjarrifur og járnoddur þess var sex hundruð siklar á þyngd. Maður fór fyrir honum og bar skjöld hans.
8 Golíat tók sér stöðu, hrópaði til fylkinga Ísraels og sagði: „Hvers vegna hafið þið farið og fylkt ykkur til bardaga? Er ég ekki Filistei og þið þrælar Sáls? Veljið ykkur mann til að koma niður til mín. 9 Ef hann sigrar og fellir mig verðum við þrælar ykkar en sigri ég og felli hann verðið þið þrælar okkar.“ 10 Filisteinn hélt áfram: „Nú hef ég auðmýkt herfylkingar Ísraels. Sendið nú einhvern til mín svo að við getum barist.“
11 Þegar Sál og allur Ísrael heyrði þessi orð Filisteans skelfdust þeir og urðu mjög hræddir.

Davíð í herbúðum Sáls

12 Davíð var sonur Ísaí af ætt Efrata frá Betlehem í Júda. Ísaí átti átta syni. Hann var orðinn gamall maður, háaldraður, á dögum Sáls. 13 Þrír elstu synir hans höfðu fylgt Sál í stríðið. Þeir þrír synir hans, sem höfðu farið í stríðið, hétu Elíab, sem var frumburðurinn, Abínadab, sem var næstelstur, og Samma sem var þriðji elstur. 14 Davíð var yngstur en hinir þrír eldri höfðu fylgt Sál. 15 Öðru hverju yfirgaf Davíð hirð Sáls og sneri heim til að gæta sauða föður síns í Betlehem.
16 Í fjörutíu daga gekk Filisteinn fram og tók sér stöðu, bæði kvölds og morgna.
17 Einhverju sinni sagði Ísaí við Davíð, son sinn: „Taktu eina efu af ristaða korninu og þessi tíu brauð handa bræðrum þínum. Flýttu þér síðan til þeirra í herbúðunum. 18 Færðu hershöfðingjanum þessa tíu osta, spyrðu hvernig bræðrum þínum líður og komdu með eitthvað frá þeim sem staðfestir það. 19 Þeir eru með Sál og öllum hinum Ísraelsmönnunum í Eikadalnum að berjast við Filistea.“
20 Morguninn eftir fór Davíð snemma á fætur, skildi féð eftir í vörslu annars, tók farangur sinn og hélt síðan af stað eins og Ísaí hafði lagt fyrir hann. Þegar hann kom að herbúðunum var herinn á leið út í fylkingum og lét herópið gjalla. 21 Ísraelsmenn og Filistear fylktu nú liði hvorir gegn öðrum. 22 Davíð skildi eftir það sem hann hafði meðferðis hjá þeim sem gætti farangursins, hljóp síðan inn í fylkinguna til bræðra sinna og heilsaði þeim. 23 Á meðan hann var að tala við þá gekk hólmgöngumaðurinn Golíat frá Gat út úr fylkingum Filistea. Hann endurtók það sem hann var vanur að segja og Davíð heyrði það. 24 Þegar Ísraelsmenn sáu hann urðu þeir allir mjög hræddir og lögðu á flótta. 25 Ísraelsmenn sögðu: „Hafið þið séð manninn sem gengur þarna fram? Hann kemur til að hæða Ísrael. Konungur mun launa þeim manni ríkulega sem fellir hann. Hann mun gefa honum dóttur sína og gera fjölskyldu hans skattfrjálsa í Ísrael.“ 26 Davíð spurði þá mennina sem stóðu hjá honum: „Hvernig verður þeim manni launað sem drepur þennan Filistea og rekur slyðruorðið af Ísrael? Hver er þessi óumskorni Filistei sem dirfist að hæðast að hersveitum hins lifandi Guðs?“ 27 Þeir sögðu honum þá hvernig þeim yrði launað sem legði hann að velli.
28 Elíab, elsti bróðir hans, heyrði hvað hann sagði við mennina, reiddist Davíð og sagði: „Hvers vegna varstu að koma hingað? Hjá hverjum skildirðu þessa fáu sauði eftir í eyðimörkinni? Ég þekki frekju þína og illsku. Þú ert hingað kominn til þess eins að horfa á bardagann.“ 29 Davíð svaraði: „Hvað hef ég nú gert? Mátti ég ekki spyrja?“ 30 Síðan sneri hann sér frá honum og að öðrum og spurði hins sama og var honum svarað eins og áður.
31 En það fréttist hvað Davíð hafði sagt, og var Sál sagt frá því og lét hann sækja hann. 32 Davíð sagði við Sál: „Það er ástæðulaust að láta hugfallast vegna Filisteans. Ég, þjónn þinn, mun fara og berjast við þennan Filistea.“ 33 Sál svaraði Davíð: „Þú hefur ekki burði til að berjast við Filisteann. Þú ert aðeins unglingur. En hann hefur verið hermaður allt frá æskuárum.“ 34 Davíð svaraði Sál: „Þjónn þinn hefur verið fjármaður hjá föður sínum. Þegar ljón eða björn kom og tók lamb úr hjörðinni 35 elti ég hann og felldi og reif síðan lambið úr gini hans. En ef dýrið réðst á mig greip ég í makkann á því og drap það. 36 Þjónn þinn hefur bæði drepið ljón og birni og eins mun fara fyrir þessum óumskorna Filistea vegna þess að hann hefur hæðst að hersveitum hins lifandi Guðs.“ 37 Og Davíð hélt áfram: „Drottinn, sem bjargaði mér úr klóm ljóna og bjarna, mun einnig bjarga mér frá Filisteanum.“ Þá svaraði Sál Davíð: „Þú skalt fara, Drottinn veri með þér.“
38 Sál færði Davíð þá í herklæði sín, setti eirhjálm á höfuð honum og bjó hann brynju. 39 Davíð gyrti sig sverði hans yfir herklæðin og reyndi að ganga en það hafði hann ekki reynt áður. Davíð sagði þá við Sál: „Ég get ekki gengið í þessu því að ég er því óvanur.“ Fór hann síðan úr herklæðunum, 40 tók staf sinn sér í hönd og valdi fimm hála steina úr ánni, lét þá í smalatösku sína, sem hann var með, og hafði slöngvusteinana í. Hann hélt síðan gegn Filisteanum með slöngvu sína í hendi.

Davíð sigrar Golíat

41 Filisteinn gekk fram og nálgaðist Davíð og maðurinn, sem bar skjöld hans, gekk fyrir honum. 42 Filisteinn kom auga á Davíð og leit til hans með fyrirlitningu því að hann var aðeins unglingur, fríður og rauðbirkinn. 43 „Heldurðu að ég sé hundur,“ spurði Filisteinn Davíð, „úr því að þú kemur á móti mér með staf?“ Og Filisteinn formælti Davíð við guð sinn 44 og hrópaði til Davíðs: „Komdu hingað. Ég skal gefa fuglum himinsins og dýrum merkurinnar hræ þitt að éta.“ 45 Davíð svaraði Filisteanum: „Þú kemur á móti mér með sverð, spjót og lensu en ég kem á móti þér í nafni Drottins hersveitanna. Hann er Guð herfylkinga Ísraels sem þú hefur smánað. 46 Í dag mun Drottinn framselja þig í hendur mér. Ég mun fella þig og höggva af þér höfuðið. Í dag mun ég gefa fuglum himinsins og dýrum merkurinnar hræ þitt og hræ hermanna Filistea. Þá munu allir íbúar jarðarinnar viðurkenna að Ísrael á sér Guð. 47 Allir, sem hér eru saman komnir, skulu viðurkenna að Drottinn frelsar ekki með sverði og spjóti. Þetta er stríð Drottins og hann mun framselja ykkur í hendur okkar.“
48 Filisteinn hélt af stað og gekk fram gegn Davíð. Hann hljóp hratt á móti honum í áttina að herfylkingunni, 49 stakk hendinni í töskuna, tók úr henni stein og slöngvaði og hæfði Filisteann í ennið. Grófst steinninn í enni Filisteans sem féll á grúfu til jarðar. 50 Þannig sigraði Davíð Filisteann með slöngvu og steini. Hann felldi hann og drap án þess að hafa sverð í hendi.
51 Síðan hljóp Davíð að og til Filisteans, greip um sverð hans, dró það úr slíðrum og drap hann og hjó loks af honum höfuðið með því. Þegar Filistearnir sáu að hetja þeirra var fallin lögðu þeir á flótta. 52 En Ísraelsmenn og Júdamenn æptu heróp og ráku flóttann allt að dalsmynninu og síðan að borgarhliði Ekron. Vegnir Filistear lágu á veginum frá Saaraím allt til Gat og Ekron. 53 Þegar Ísraelsmenn komu aftur frá því að elta Filisteana rændu þeir herbúðir þeirra. 54 Davíð tók höfuð Filisteans og fór með það til Jerúsalem en vopnum hans kom hann fyrir í tjaldi sínu.
55 Þegar Sál sá Davíð halda gegn Filisteanum sagði hann við Abner, hershöfðingja sinn: „Hverra manna er þessi ungi maður, Abner?“ Abner svaraði: „Svo sannarlega sem þú lifir, konungur, þá veit ég það ekki.“ 56 Konungurinn sagði þá: „Spyrðu hverra manna þessi unglingur sé.“
57 Þegar Davíð sneri aftur, eftir að hafa drepið Filisteann, sótti Abner hann og lét hann ganga fyrir Sál með höfuð Filisteans í hendi. 58 Sál spurði hann: „Hverra manna ert þú, ungi maður?“ Davíð svaraði: „Ég er sonur Ísaí, þjóns þíns frá Betlehem.“