Davíð og Jónatan

1 Þegar samtali Davíðs og Sáls lauk vingaðist Jónatan við Davíð. Jónatan elskaði hann eins og sjálfan sig. 2 Frá þeim degi tók Sál Davíð til sín og meinaði honum að fara heim til föður síns.
3 Jónatan gerði sáttmála við Davíð af því að hann elskaði hann eins og sjálfan sig. 4 Jónatan tók af sér yfirhöfnina sem hann bar og gaf Davíð hana. Hann gaf honum einnig herklæði sín, jafnvel sverð sitt, boga og belti.
5 Davíð fór í hernað og hvar sem hann fór að boði Sáls gekk honum vel. Sál setti hann því yfir hermenn sína. Öll þjóðin dáði hann, einnig hirðmenn Sáls.

Fjandskapur Sáls gegn Davíð

6 Þegar herinn sneri heim, eftir að Davíð hafði fellt Filisteann, fóru konur úr öllum borgum Ísraels á móti Sál konungi. Þær sungu og dönsuðu fagnandi og léku á bumbur og symbala. 7 Konurnar léku og sungu:
Sál felldi sín þúsund
en Davíð sín tíu þúsund.

8 Sál mislíkaði þetta kvæði, reiddist mjög og sagði: „Þær eigna Davíð tíu þúsund en mér aðeins eitt þúsund. Nú vantar hann aðeins konungdóminn.“ 9 Upp frá þessu leit Sál Davíð jafnan öfundaraugum.
10 Daginn eftir hljóp illur andi frá Guði í Sál. Rann á hann æði inni í húsinu á meðan Davíð lék á hörpuna eins og hann gerði dag hvern. Sál hafði spjót í hendi 11 og kastaði því. Hann hugsaði með sér: „Nú rek ég Davíð í gegn og festi hann við vegginn,“ en Davíð tókst tvívegis að víkja sér undan.
12 Sál tók nú að óttast Davíð af því að Drottinn var með honum en hafði yfirgefið hann sjálfan. 13 Hann sendi því Davíð frá sér og gerði hann að foringja yfir þúsund manna herliði. Fór Davíð fyrir liðinu þegar það hélt að heiman og þegar það sneri aftur heim.
14 Davíð vegnaði vel hvar sem hann fór því að Drottinn var með honum. 15 Þegar Sál sá hve vel honum vegnaði varð hann hræddur við hann. 16 En allur Ísrael og Júda elskaði Davíð af því að hann fór fyrir þeim til orrustu og heim aftur.

Davíð mægist við konung

17 Einhverju sinni sagði Sál við Davíð: „Hér er Merab, elsta dóttir mín. Ég skal gefa þér hana að konu ef þú reynist mér hraustur maður og berst í bardögum Drottins.“ En Sál hugsaði með sér: „Ég skal ekki leggja hendur á hann heldur skulu Filistear verða til þess.“ 18 Davíð svaraði Sál: „Hver er ég og hver ættkvísl mín og hver er ætt föður míns í Ísrael að ég geti orðið tengdasonur konungs?“ 19 En þegar sá tími kom að Merab, dóttir Sáls, skyldi gefin Davíð, þá hafði hún þegar verið gefin Adríel frá Mehóla að eiginkonu.
20 Míkal, dóttir Sáls, elskaði Davíð og Sál var skýrt frá því. Honum féll það vel 21 því að hann hugsaði með sér: „Ég skal gefa honum hana svo að hún verði honum að tálsnöru og Filistear nái honum á sitt vald.“ Sál sagði því öðru sinni við Davíð: „Nú getur þú orðið tengdasonur minn.“
22 En Sál bauð þjónum sínum að tala við Davíð svo að lítið bæri á og segja við hann: „Konunginum fellur vel við þig og þú ert vinsæll meðal allra þjóna hans. Nú getur þú orðið tengdasonur konungs.“ 23 Þjónar Sáls fluttu Davíð þessi skilaboð og hann svaraði: „Finnst ykkur það lítils virði að verða tengdasonur konungsins? Ég er fátækur maður og lítils háttar.“
24 Þjónar Sáls sögðu honum þá hvað Davíð hefði sagt. 25 En Sál svaraði: „Þetta skuluð þið segja Davíð: Konungur kærir sig ekki um annað brúðarverð en forhúðir hundrað Filistea. Með því vill hann hefna sín á fjandmönnum sínum.“ Þannig gerði Sál ráð fyrir að Davíð félli í hendur Filisteum.
26 Þjónar Sáls fluttu Davíð þessa orðsendingu og Davíð lét sér vel líka að mægjast við konung. Áður en tilskilinn tími var liðinn 27 bjó Davíð sig, fór ásamt mönnum sínum og felldi tvö hundruð menn úr liði Filistea. Davíð færði konunginum síðan forhúðir þeirra, allar með tölu, svo að hann gæti orðið tengdasonur hans. Sál gaf honum þá Míkal, dóttur sína, fyrir eiginkonu.
28 Sál varð það æ ljósara að Drottinn var með Davíð og að Míkal, dóttir Sáls, elskaði hann.[ 29 Varð Sál því enn hræddari við Davíð og gerðist fjandmaður hans ævilangt.
30 Höfðingjar Filistea héldu áfram að gera árásir. En í hvert skipti sem þeir fóru í leiðangur gekk Davíð betur en nokkrum öðrum liðsmanni Sáls. Nafn hans varð því víðfrægt.