Harmljóð um höfðingja Ísraels

1 Flyttu harmljóð um höfðingja Ísraels 2 og segðu:
Hvílík ljónynja var móðir þín
meðal ljónanna.
Hún lá meðal ungljóna,
ól upp ljónshvolpa sína.
3Hún kom einum þeirra upp,
hann varð fullvaxta ungljón,
lærði að rífa í sig bráð,
hann át menn.
4Þá voru framandi þjóðir kvaddar saman
gegn honum,
hann var fangaður í gryfju þeirra.
Þær drógu hann með krókum til Egyptalands.
5Þegar ljónynjan skildi að von hennar hafði brugðist,
var orðin að engu,
valdi hún annan af hvolpum sínum,
ól önn fyrir honum uns hann varð ungljón.
6Hann eigraði um meðal ljóna,
varð fullvaxta ungljón,
lærði að rífa í sig bráð,
hann át menn.
7Hann braut virki þeirra
og lagði borgir þeirra í rústir
svo að landið og íbúar þess
stirðnuðu af skelfingu
við öskur hans.
8Þá voru þjóðir sendar gegn honum
frá löndunum umhverfis,
þær þöndu út net fyrir hann,
hann var fangaður í gryfju þeirra.
9Með krókum var hann settur í búr
og færður til konungsins í Babýlon.
Honum var fleygt í svarthol
svo að öskur hans heyrðist ekki framar
á fjöllum Ísraels.
10Móðir þín var eins og vínviður
sem gróðursettur var við vatn.
Hann bar margar greinar og ríkulegan ávöxt
því að hann hafði nóg vatn.
11Greinar hans urðu sterkar,
þær mátti hafa í veldissprota.
Vöxtur hans varð mikill,
hann gnæfði hátt meðal skýja
og sást langt að, svo hár var hann
og greinarnar margar.
12En hann var rifinn upp í heift
og fleygt til jarðar.
Austanvindurinn þurrkaði ávexti hans
og þeir voru slitnir af honum.
Hinar voldugu greinar skrælnuðu,
eldur gleypti þær.
13Nú er hann gróðursettur í eyðimörk,
í þurru og þyrstu landi.
14Eldur blossaði út úr stofninum
og gleypti bæði greinar og ávöxt
svo að engin sterk grein varð eftir
sem hafa mætti í veldissprota.

15 Þetta er harmljóð og verður harmljóð.