Köllun Móse

1 Móse gerðist fjárhirðir hjá tengdaföður sínum, Jetró, presti í Midían. Einu sinni rak hann féð langt inn í eyðimörkina og kom að Hóreb, fjalli Guðs. 2 Þá birtist honum engill Guðs í eldsloga sem stóð upp af þyrnirunna. Hann sá að runninn stóð í ljósum logum en brann ekki. 3 Móse hugsaði: „Ég verð að ganga nær og virða fyrir mér þessa mikilfenglegu sýn. Hvers vegna brennur runninn ekki?“
4 Þegar Drottinn sá að hann gekk nær til að virða þetta fyrir sér kallaði Guð til hans úr miðjum runnanum og sagði: „Móse, Móse.“ Hann svaraði: „Hér er ég.“ 5 Drottinn sagði: „Komdu ekki nær, drag skó þína af fótum þér því að staðurinn, sem þú stendur á, er heilög jörð.“ 6 Og hann bætti við: „Ég er Guð föður þíns, Guð Abrahams, Guð Ísaks og Guð Jakobs.“ Þá huldi Móse andlit sitt því að hann óttaðist að líta Guð.
7 Þá sagði Drottinn: „Ég hef séð eymd þjóðar minnar í Egyptalandi og heyrt kvein hennar undan þeim sem þrælka hana. Já, ég þekki þjáningu hennar. 8 Ég er kominn niður til að bjarga henni úr greipum Egypta og leiða hana úr þessu landi og upp til lands sem er gott og víðlent, til lands sem flýtur í mjólk og hunangi, til landsvæðis Kanverja, Hetíta, Amoríta, Peresíta, Hevíta og Jebúsíta. 9 En nú er kvein Ísraelsmanna komið til mín og ég hef einnig séð hvernig Egyptar kúga þá. 10 Farðu nú af stað. Ég sendi þig til faraós. Leiddu þjóð mína, Ísraelsmenn, út úr Egyptalandi.“ 11 Móse svaraði Guði: „Hver er ég, að ég fari til faraós og leiði Ísraelsmenn út úr Egyptalandi?“ 12 Guð sagði: „Ég mun vera með þér. Þetta skal vera þér tákn þess að ég hef sent þig: Þegar þú hefur leitt þjóðina út úr Egyptalandi munuð þið þjóna Guði á þessu fjalli.“ 13 Móse sagði við Guð: „Ef ég kem til Ísraelsmanna og segi við þá: Guð feðra ykkar hefur sent mig til ykkar, og þeir spyrja mig: Hvert er nafn hans? hverju á ég þá að svara þeim?“ 14 Guð svaraði Móse: „Ég er sá sem ég er.“ Og hann bætti við: „Svo skaltu segja við Ísraelsmenn: „Ég er“ sendi mig til ykkar.“ 15 Enn fremur sagði Guð við Móse: „Svo skaltu segja við Ísraelsmenn: Drottinn, Guð feðra ykkar, Guð Abrahams, Guð Ísaks og Guð Jakobs, sendi mig til ykkar. Þetta er nafn mitt um aldur og ævi, heiti mitt frá kyni til kyns. 16 Farðu og stefndu saman öldungum Ísraels og segðu við þá: Drottinn, Guð feðra ykkar, birtist mér, Guð Abrahams, Ísaks og Jakobs, og sagði: Ég hef fylgst gaumgæfilega með ykkur og því sem ykkur hefur verið gert í Egyptalandi. 17 Ég hef ákveðið að leiða ykkur úr þjáningunni í Egyptalandi til lands Kanverja, Hetíta, Amoríta, Peresíta, Hevíta og Jebúsíta, til lands sem flýtur í mjólk og hunangi. 18 Þeir munu hlusta á þig og þú skalt fara sjálfur ásamt öldungum Ísraels til Egyptalandskonungs og segja við hann: Drottinn, Guð Hebrea, birtist okkur. Nú viljum við fara þrjár dagleiðir inn í eyðimörkina og færa Drottni, Guði okkar, sláturfórnir. 19 Sjálfur veit ég að konungur Egyptalands leyfir ykkur ekki að fara nema tekið sé hart á honum. 20 Ég mun rétta út hönd mína og brjóta Egyptaland á bak aftur með öllum máttarverkum mínum sem ég mun gera þar. Þá fyrst mun hann sleppa ykkur. 21 En ég mun láta þessa þjóð njóta velvildar Egypta svo að þið farið ekki tómhentir þegar þið haldið burt. 22 Hver kona skal biðja grannkonu sína eða aðkomukonu í húsi sínu um silfurgripi og gullgripi, einnig um klæði. Þið skuluð láta syni ykkar og dætur bera þetta; þannig skuluð þið ræna Egypta.“