Dómur yfir andvaralausum

1Vei hinum áhyggjulausu á Síon,
hinum sjálfsöruggu á Samaríufjalli,
höfðingjum hinnar fremstu meðal þjóðanna
sem Ísraelsmenn leita til.
2Farið yfir til Kalne [ og litist um.
Haldið þaðan til stórborgarinnar Hamat [
og síðan niður til Gat í landi Filistea.
Eruð þér þessum konungsríkjum fremri?
Er land yðar stærra en þeirra?
3Þér viljið tefja fyrir óheilladeginum
en leiðið ofbeldið til hásætis.
4Þeir hvíla á legubekkjum úr fílabeini,
teygja úr sér á hægindum sínum.
Þeir gæða sér á lömbum úr hjörðinni
og kálfum úr alistíunni.
5Þeir raula undir með hörpunni
og finna upp hljóðfæri eins og sjálfur Davíð.
6Þeir drekka vín úr bikurum
og smyrja sig með úrvalsolíu
en hryggjast ekki þótt Jósef líði undir lok.
7Þess vegna verða þeir reknir í útlegð í fararbroddi útlaganna.
Veislu slæpingjanna mun ljúka.

Refsing Samaríu

8Drottinn Guð hefur svarið við sjálfan sig,
segir Drottinn, Guð hersveitanna:
Ég hef andstyggð á hroka Jakobs
og hata hallir hans.
Ég læt borgina af hendi og allt sem í henni er.
9Ef tíu menn verða eftir í einu og sama húsi skulu þeir deyja,
10þá sækir einhver náfrænda þeirra
og þvingar hann til að bera líkin út úr húsinu,
og ef hann spyr þann sem er í innsta afkima hússins:
„Er nokkur eftir hjá þér?“
þá svarar hann: „Nei,“ og bætir við „þei, þei,“
því að ekki má nefna nafn Drottins.
11Því sjá, Drottinn hefur gefið skipun,
stóra húsið verður rúst
og litla húsið molað niður.

Andstaða við vilja Guðs

12Skeiða hross yfir kletta
eða plægja menn hafið með uxum?
En þér breytið réttinum í eitur
og ávexti réttlætisins í malurt.

Ástæðulaus sigurvíma

13Þér fagnið vegna Lo Dabar [ og segið:
Unnum vér ekki Karnaím af eigin rammleik?
14En gætið að, ég sendi þjóð gegn yður, Ísraelsmenn,
segir Drottinn, Guð hersveitanna,
sem mun kúga yður frá Lebo Hamat
allt að læknum á Arabasléttunni.