Heiðra foreldra

1Hlýðið á fortölur föður yðar, börnin mín.
Breytið eftir þeim svo að þér megið örugg vera
2 því að Drottinn hefur sett börnum að heiðra föður,
ákvarðað rétt móður yfir sonum.
3 Sá sem virðir föður sinn bætir fyrir syndir
4 og sá sem heiðrar móður sína safnar sér fjársjóði.
5 Sá sem virðir föður sinn mun barnalán hljóta
og er hann biður hlýtur hann bænheyrslu.
6 Sá sem heiðrar föður sinn mun langlífur verða
og sá sem hlýðir Drottni er móður sinni huggun.
7 Hlýð foreldrum eins og þræll húsbændum.
8 Heiðra föður þinn í orði og verki
og þú munt hljóta blessun hans.
9 Blessun föður er hornsteinn heimilis barna
en bölbæn móður sviptir það grunni.
10 Upphef þig eigi með að niðurlægja föður þinn,
þér er ei vegsauki að vansæmd hans.
11 Heiður föður er sæmd sonar,
en vansæmd móður er börnum smán.
12 Annastu föður þinn í elli hans, barnið mitt,
hryggðu hann ekki svo lengi sem hann lifir.
13 Ver honum nærgætinn þótt á hann sæki elliglöp,
vanvirð hann eigi meðan þér enn svellur þróttur.
14 Gæska við föður gleymist eigi,
hún mun bæta fyrir það sem syndir þínar spilltu.
15 Á neyðarstundu mun þín minnst verða
og syndir þínar hverfa líkt og hrím fyrir sólu.
16 Sá guðlastar sem afrækir föður sinn,
Drottinn afneitar þeim sem reitir móður sína til reiði.

Ver auðmjúkur

17Barnið mitt, stunda iðju þína í auðmýkt,
þá mun þér unnað meira en gjafmildum manni.
18 Ver því hógværari sem vegur þinn vex
og náð muntu hljóta í augum Drottins.
19 Marga ber hátt og þeir eru dáðir
en auðmjúkum birtir hann leyndardóma sína. [
20 Mikill er máttur Drottins
og auðmjúkir vegsama hann.
21 Leita þess eigi sem er þér ofvaxið
og kanna það eigi sem þér er um megn.
22 Hugleið þau boðorð sem þú hefur fengið,
hitt varðar þig engu sem er hulið.
23 Sóa ei kröftum á það sem þú veldur eigi,
þér er þegar birt meira en á manns valdi er að skilja.
24 Þótti hefur leitt marga afvega
og skaðlegar firrur spillt dómgreind þeirra.
25 Án augna sérðu ekki ljós,
án þekkingar öðlast þú ekki speki. [
26 Ill endalok bíða þverúðugra,
þeim sem ann hættu mun hún tortíma.
27 Þverúðuga munu byrðar þjaka
og syndarinn hleður synd á synd ofan.
28 Við böli hrokagikks er ekkert til bóta
því að illskan hefur fest rætur í honum.
29 Viturt hjarta íhugar orðskviði
og næmt eyra er yndi spekings.

Gjafmildi við fátæka

30 Vatnið slekkur brennandi bál
og góðverk bætir fyrir syndir.
31 Þess manns mun síðar minnst
sem launar gott með góðu,
þegar á móti blæs mun hann stuðning hljóta.