Móse blessar ættkvíslir Ísraels

1 Þannig blessaði guðsmaðurinn Móse Ísraelsmenn áður en hann dó:
2Drottinn kom frá Sínaí,
hann lýsti þeim frá Seír,
ljómaði frá Paranfjöllum.
Hann steig fram úr flokki þúsunda heilagra,
á hægri hönd honum brann eldur lögmálsins.
3Þú sem elskar þjóðirnar,
allir þeirra heilögu eru í hendi þinni.
Þeir hafa fallið þér til fóta,
rísa á fætur er þú skipar.
4Móse setti oss lög
sem eru eign safnaðar Jakobs.
5Jesjúrún fékk konung
þegar höfðingjar þjóðarinnar komu saman,
ættbálkar Ísraels sameinaðir.
6Rúben skal lifa en ekki deyja út
þótt hann verði fámennur.
7 Þetta sagði hann um Júda:
Heyr, Drottinn, rödd Júda,
leiddu hann heim til þjóðar sinnar.
Hann barðist fyrir hana með höndum sínum,
hjálpa honum gegn fjandmönnum hans.
8 Um Leví sagði hann:
Túmmím þín hafa verið falin Leví
og úrím þín þeim sem þú treystir.
Þú reyndir hann hjá Mara,
sóttir hann til saka við Meríbavatn,
9hann sem sagði um föður sinn og móður:
„Þau hef ég aldrei séð,“
og kannaðist ekki við bræður sína,
leit ekki við börnum sínum.
Því að Levítarnir héldu boð þitt
og hafa varðveitt sáttmála þinn.
10Þeir kenna Jakobi fyrirmæli þín
og Ísrael lög þín.
Þeir fórna þér reykelsisilmi
og leggja alfórn á altari þitt.
11Blessa þú, Drottinn, eignir hans
og megi þér þóknast verk hans.
Brjót þú lendar fjandmanna hans
og hatursmanna svo að þeir rísi ekki upp aftur.
12 Um Benjamín sagði hann:
Sá sem Drottinn elskar
skal vera óhultur hjá honum.
Hinn hæsti verndar hann hvern dag,
hann býr milli fjallshlíða hans.
13 Um Jósef sagði hann:
Land hans sé blessað af Drottni,
með gæðum himins, með dögginni
og vatni djúpsins sem undir hvílir,
14með þeim gæðum sem sólin færir,
ríkulegum gjöfum mánans,
15hinu besta frá eldfornum fjöllum,
því dýrmætasta af eilífum hæðum,
16með nægtum landsins og öllu sem á því er,
og náð hans sem í þyrnirunnanum býr.
Þessi blessun komi yfir höfuð Jósefs,
yfir hvirfil hans sem er höfðingi bræðra sinna.
17Tignarlegur er frumburður nautsins.
Horn hans eru vísundarhorn,
með þeim rekur hann þjóðir undir,
hrekur þær allar til endimarka jarðar.
Þetta eru tugþúsundir Efraíms,
þúsundir Manasse.
18 Um Sebúlon sagði hann:
Gleðstu, Sebúlon, þegar þú heldur úr höfn,
og þú, Íssakar, í tjöldum þínum.
19Þeir stefna ættbálkum til fjallsins
og færa þar réttar fórnir.
Þeir ausa af gnótt hafsins
og fjársjóðum huldum sandi.
20 Um Gað sagði hann:
Lofaður sé sá sem eykur við land Gaðs.
Hann liggur í leyni sem ljónynja,
slítur síðan af arm og höfuð.
21Hann valdi sér landið sem fyrst var tekið,
landið sem ætlað var leiðtoganum.
Þar koma höfðingjar fólksins saman.
Hann framfylgdi réttlæti Drottins
og lögum hans í Ísrael.
22 Um Dan sagði hann:
Dan er ljónshvolpur
sem kemur stökkvandi frá Basan.
23 Um Naftalí sagði hann:
Naftalí er saddur af velvild,
mettaður af blessun Drottins.
Hann skal hljóta vatnið og Suðurlandið.
24 Um Asser sagði hann:
Asser sé blessaður umfram hina synina,
hann sé eftirlæti bræðra sinna
og laugi fót sinn olíu.
25 Slagbrandar þínir skulu vera úr járni og eir,
afl þitt endist þér alla ævi.
26 Enginn er sem Guð Jesjúrúns
sem ríður yfir himininn þér til hjálpar
og á skýjum í hátign sinni.
27 Hæli er hinn eldforni Guð,
hér neðra eru eilífir armar hans.
Hann stökkti fjandmönnum undan þér
og sagði: „Eyð þeim.“
28 Síðan bjó Ísrael óhultur,
lind Jakobs ein sér
í landi auðugu af korni og víni
þar sem himinninn lætur dögg drjúpa.
29 Heill þér, Ísrael. Hver er sem þú?
Þjóðin sem Drottinn frelsaði.
Hann er skjöldurinn sem ver þig,
sverðið sem veitir þér sigur.
Fjandmenn þínir munu skríða fyrir þér,
þú munt traðka á baki þeirra.