Davíð verður konungur Júda og Ísraels

1 Allir ættbálkar Ísraels komu til Davíðs í Hebron og sögðu: „Við erum hold þitt og bein. 2 Áður fyrr, á meðan Sál var konungur okkar, varst það þú sem leiddir Ísrael í hernað og heim aftur. Auk þess hefur Drottinn sagt við þig: Þú skalt vera hirðir þjóðar minnar, Ísraels. Þú skalt vera leiðtogi Ísraels.“
3 Þegar allir öldungar Ísraels voru komnir til konungsins í Hebron gerði Davíð konungur sáttmála við þá frammi fyrir augliti Drottins í Hebron. Því næst smurðu þeir Davíð til konungs yfir Ísrael.
4 Davíð var þrjátíu ára þegar hann varð konungur og ríkti fjörutíu ár. 5 Í Hebron ríkti hann sjö ár og sex mánuði yfir Júda og í Jerúsalem þrjátíu og þrjú ár yfir öllum Ísrael og Júda.

Davíð tekur Jerúsalem

6 Konungurinn hélt nú ásamt mönnum sínum til Jerúsalem til að ráðast gegn Jebúsítunum sem bjuggu í héraðinu. Þeir tilkynntu Davíð: „Þú kemst ekki hingað inn, jafnvel blindir og lamaðir geta varist þér,“ og áttu þá við: „Davíð kemst ekki hingað inn.“ 7 Samt tók Davíð klettavirkið Síon sem varð borg Davíðs. 8 Á þeim degi sagði Davíð: „Sérhver, sem ætlar að vinna Jebúsíta, verður að taka undirgöngin til að ná til þeirra blindu og lömuðu sem Davíð hatar.“ Þaðan er komið orðtakið: „Blindir og lamaðir skulu ekki komast inn í húsið.“
9 Davíð settist nú að í virkinu, nefndi það Davíðsborg og lét síðan reisa víggirðingu allt umhverfis virkið frá Milló og þaðan inn á við.
10 Hann varð sífellt voldugri og Drottinn, Guð hersveitanna, var með honum.
11 Híram, konungur í Týrus, sendi menn til Davíðs með sedrusvið, einnig sendi hann trésmiði og steinsmiði. Þeir byggðu hús handa Davíð. 12 Þá skildi Davíð að Drottinn hafði fest hann í sessi sem konung yfir Ísrael og hafið konungdóm hans til vegs vegna þjóðar sinnar, Ísraels.

Synir Davíðs í Jerúsalem

13 Eftir að Davíð var farinn frá Hebron tók hann sér hjákonur og eiginkonur sem voru frá Jerúsalem. 14 Honum fæddust því fleiri synir og dætur. Þetta eru nöfn sonanna sem fæddust honum í Jerúsalem: Sammúa, Sóbab, Natan, Salómon, 15 Jíbhar, Elísúa, Nefeg, Jafía, 16 Elísama, Eljada og Elífelet.

Davíð sigrar Filistea

17 Þegar Filistear fréttu að Davíð hafði verið smurður til konungs yfir Ísrael héldu þeir allir norður á bóginn til þess að taka Davíð til fanga. Þegar Davíð barst fregn af því fór hann niður í klettavirkið. 18 Filistear voru þá komnir og höfðu dreift sér um Refaímsléttu.
19 Þá leitaði Davíð svara hjá Drottni og spurði: „Á ég að fara gegn Filisteum? Muntu selja þá mér í hendur?“ Drottinn svaraði Davíð: „Farðu norður eftir því að ég mun vissulega selja Filistea þér í hendur.“ 20 Þá fór Davíð til Baal Perasím, sigraði þá þar og sagði: „Drottinn hefur rofið fylkingar fjandmanna minna frammi fyrir mér líkt og vatn sem brýtur sér leið.“ Þess vegna er þessi staður nefndur Baal Perasím,[ það er Herra rofsins. 21 Filistearnir skildu skurðgoð sín eftir þarna og Davíð og menn hans tóku þau með sér.
22 En Filistearnir héldu aftur norður og dreifðu sér um Refaímsléttu.
23 Davíð leitaði þá aftur svara hjá Drottni og hann svaraði: „Þú skalt ekki fara beint á móti þeim, farðu á svig við þá og aftur fyrir þá og gerðu árás á þá frá Bakatrjánum. 24 Þegar þú heyrir þrusk, skóhljóði líkast, í hæstu greinum Bakatrjánna skaltu bregða skjótt við því að þá fer Drottinn fyrir þér til þess að sigra her Filistea.“
25 Davíð gerði það sem Drottinn hafði fyrir hann lagt og sigraði Filistea á öllu svæðinu frá Geba til Geser.