Filistear skila örkinni

1 Þegar örk Drottins hafði verið í landi Filistea í sjö mánuði 2 kölluðu Filistear á presta sína og spásagnarmenn og spurðu: „Hvað eigum við að gera við örk Drottins? Segið okkur hvernig við eigum að senda hana heim.“ 3 Þeir svöruðu: „Þegar þið sendið örk Ísraels Guðs aftur skuluð þið ekki senda hana eina heldur verðið þið að senda yfirbótargjöf með henni. Þá munuð þið læknast og ykkur verða ljóst af hverju hönd hans hefur ekki vikið frá ykkur.“ 4 „Hvaða yfirbótargjöf eigum við að senda með henni?“ spurðu þeir. Hinir svöruðu: „Sendið fimm gullkýli og fimm gullmýs, eða jafnmargar og höfðingjar Filistea eru, því að ein og sama plága hefur hrjáð ykkur og höfðingja ykkar. 5 Þið skuluð búa til eftirlíkingar af kýlunum á ykkur og af músunum, sem herja á landið, og gefa Guði Ísraels dýrðina. Ef til vill léttir hann þá hendi sinni af ykkur, guðum ykkar og landi. 6 Hvers vegna viljið þið herða hjörtu ykkar eins og Egyptarnir og faraó hertu hjörtu sín? Fór ekki svo, þegar Drottinn tók að hrjá þá, að þeir urðu að leyfa Ísraelsmönnum að fara leiðar sinnar? 7 Nú skuluð þið gera nýjan vagn. Sækið síðan tvær kýr sem kálfar ganga undir og aldrei hefur verið lagt ok á. Spennið kýrnar fyrir vagninn en takið kálfana frá þeim og rekið þá heim. 8 Sækið því næst örk Drottins og komið henni fyrir á vagninum en gullgripina, sem þið sendið með henni sem yfirbótargjafir, skuluð þið setja í kistil við hliðina á henni. Sendið hana síðan af stað. 9 En fylgist vandlega með því hvort hún stefnir til síns eigin lands. Ef hún stefnir til Bet Semes er það Drottinn sem hefur valdið okkur þessu mikla böli. Geri hún það ekki vitum við að það var ekki hönd hans sem sló okkur heldur var það sem henti okkur tilviljun.“
10 Þetta gerðu mennirnir. Þeir sóttu kýr sem kálfar gengu undir, spenntu þær fyrir vagn en lokuðu kálfana inni. 11 Þeir settu örk Drottins á vagninn, ásamt kistlinum, gullmúsunum og eftirlíkingunum af kýlunum. 12 Síðan stefndu kýrnar beint til Bet Semes. Þær fóru rakleiðis eftir veginum, bauluðu án afláts og viku hvorki til hægri né vinstri. Höfðingjar Filistea fylgdu þeim inn á landsvæði Bet Semes.
13 Íbúar Bet Semes voru við hveitiuppskeru í dalnum. Þeir litu upp og glöddust er þeir sáu örkina.
14 Þegar vagninn kom inn á land Jósúa frá Bet Semes nam hann staðar við stóran stein. Klauf þá fólkið viðinn, sem vagninn var úr, og færði Drottni kýrnar að brennifórn.
15 Levítarnir tóku örk Drottins ofan af vagninum og kistilinn með gullgripunum sem hjá henni var og settu á stóra steininn. Íbúar Bet Semes færðu Drottni brennifórn og sláturfórn þann dag. 16 Hinir fimm höfðingjar Filistea horfðu á þetta og sneru síðan samdægurs til Ekron.
17 Þetta eru gullkýlin sem Filistear sendu sem yfirbótargjöf til Drottins: eitt fyrir Asdód, eitt fyrir Gasa, eitt fyrir Askalon, eitt fyrir Gat og eitt fyrir Ekron. 18 Gullmýsnar voru jafnmargar og borgir hinna fimm höfðingja Filistea, bæði víggirtar borgir og óvarin sveitaþorp. Stóri steinninn, sem þeir létu örk Drottins hvíla á, er enn í landi Jósúa frá Bet Semes.
19 Drottinn refsaði íbúum Bet Semes af því að þeir höfðu horft á örk Drottins. Hann deyddi sjötíu manns og fólkið syrgði af því að Drottinn hafði veitt því svo þungt högg. 20 Síðan sögðu íbúarnir í Bet Semes: „Hver getur staðist fyrir augliti Drottins, þessa heilaga Guðs? Hvert heldur hann þegar hann fer frá okkur?“
21 Því næst sendu þeir menn til íbúa Kirjat Jearím með svohljóðandi boð: „Filistear hafa skilað örk Drottins. Komið hingað niður eftir og sækið hana.“