Þjóðin heitir að halda lögmálið

1 Vegna alls þessa gerum við skriflegt samkomulag. Á hinu innsiglaða skjali standa nöfn leiðtoga okkar, Levíta og presta.
2 Þeir sem innsigluðu samkomulagið voru: Nehemía Hakalíason landstjóri og Sedekía, 3 Seraja, Asarja, Jeremía, 4 Pashúr, Amarja, Malkía, 5 Hattús, Sebanja, Mallúk, 6 Harím, Meremót, Óbadía, 7 Daníel, Ginnetón, Barúk, 8 Mesúllam, Abía, Míjamín, 9 Maasja, Bilgaí og Semaja. Þetta voru prestarnir.
10 Levítarnir voru: Jesúa Asanjason, Binnúí, einn af niðjum Henadads, Kadmíel 11 og bræður þeirra: Sebanja, Hódía, Kelíta, Pelaja, Hanan, 12 Míka, Rehób, Hasabja, 13 Sakkúr, Serebja, Sebanja, 14 Hodía, Baní og Benínú.
15 Leiðtogar fólksins voru: Parós, Pahat Móab, Elam, Sattú, Baní, 16 Búní, Asgad, Bebaí, 17 Adónía, Bigvaí, Adín, 18 Ater, Hiskía, Assúr, 19 Hodíja, Hasúm, Besaí, 20 Haríf, Anatót, Nóbaí, 21 Magpías, Mesúllam, Hesír, 22 Mesesabeel, Sadók, Jaddúa, 23 Pelatja, Hanan, Anaja, 24 Hósea, Hananja, Hassúb, 25 Hallóhes, Pílha, Sóbek, 26 Rehúm, Hasabna, Maaseja, 27 Ahía, Hanan, Anan, 28 Mallúk, Harím og Baana.
29 Þeir sem ótaldir eru af fólkinu, prestunum, Levítunum, hliðvörðunum, söngvurunum og musterisþjónunum og allir sem höfðu greint sig frá framandi þjóðum og snúið sér að lögmáli Guðs, konur þeirra, synir og dætur, allir sem komnir voru til vits og ára, 30 tengdust hinum göfugu bræðrum sínum með eiðum og svardögum. Þeir skuldbundu sig til að fylgja lögmáli Guðs sem gefið var fyrir munn Móse, þjóns Guðs, og halda og uppfylla öll boð Drottins, Guðs okkar, reglur hans og ákvæði.
31 Við munum hvorki fá framandi þjóðum í landinu dætur okkar að eiginkonum né taka dætur þeirra að eiginkonum handa sonum okkar.
32 Þegar aðrar þjóðir í landinu bjóða vörur til kaups á hvíldardegi, einkum ýmiss konar korn, munum við hvorki þiggja neitt af þeim á hvíldardegi né á öðrum helgum degi.
Sjöunda hvert ár munum við ekki nýta það sem landið gefur af sér og gefa eftir hverja skuldakröfu.
33 Við göngumst undir að greiða þriðjung úr sikli árlega til þjónustunnar í húsi Guðs okkar: 34 fyrir skoðunarbrauðin, hinar daglegu korn- og brennifórnir, fyrir fórnir á hvíldardögum, tunglkomudögum og hátíðum, til helgigjafa og syndafórna til yfirbótar fyrir Ísrael og alls konar vinnu í húsi Guðs okkar.
35 Við, prestarnir, Levítarnir og almenningur, skárum úr því með hlutkesti hverjir skyldu koma með við til brennslu. Hver fjölskylda á að færa hann árlega á tilteknum tíma í hús Guðs okkar. Viðinn skal brenna á altari Drottins, Guðs okkar, eins og sagt er fyrir um í lögmálinu.
36 Enn fremur munum við árlega færa frumgróða akra okkar og frumgróða allra ávaxtatrjáa í hús Drottins, 37 svo og frumburði sona okkar og fjár, eins og skráð er í lögmálinu. Frumburði nauta okkar og fénaðar færum við í hús Guðs okkar handa prestunum sem þjóna í húsi Guðs.
38 Hið besta af brauðdeigi okkar, af ávöxtum allra trjáa og af víni og olíu færum við prestunum í herbergi húss Guðs okkar og Levítunum tíunda hlutann af uppskeru akurs okkar. Levítarnir safna sjálfir tíundinni á hverjum stað sem við ræktum. 39 Prestur af Aronsætt á að vera með Levítunum þegar þeir safna tíundinni og tíunda hluta hennar eiga Levítarnir að flytja í hús Guðs okkar, í geymslur fjárhirslunnar. 40 Ísraelsmenn og Levítarnir skulu flytja afgjöld sín af korni, víni og olíu í þessar geymslur. Þar eru áhöld helgidómsins og þar hafa prestarnir, sem gegna þjónustu, dyraverðirnir og söngvararnir aðsetur.
Þannig munum við ekki vanrækja Guðs hús.