Svar Jobs

1 Job svaraði og sagði:
2Hversu lengi ætlið þér að angra mig
og brjóta mig niður með orðum?
3Nú hafið þér smánað mig tíu sinnum,
þér skammist yðar ekki fyrir að misbjóða mér.
4Hafi mér í raun orðið eitthvað á
þá varðar misgjörð mín mig einan.
5Ef þér ætlið í raun og veru að upphefja sjálfa yður
með því að sýna fram á smán mína
6skuluð þér játa að Guð lítillækkaði mig
þar sem hann kastaði yfir mig neti sínu.
7Hrópi ég „ofbeldi“ er mér ekki svarað,
kalli ég á hjálp er enga réttvísi að finna.
8Hann lokaði vegi mínum svo að ég komst ekki áfram
og myrkvaði leiðir mínar.
9Hann svipti mig heiðri mínum,
tók kórónuna af höfði mér.
10Hann braut mig algjörlega niður
og upprætti von mína eins og tré.
11Heift hans brann gegn mér
og hann taldi mig í hópi óvina sinna.
12Herskarar hans komu saman,
ruddu sér braut til mín
og slógu upp búðum umhverfis tjald mitt.
13Hann gerði bræður mína fráhverfa mér
og kunningjar mínir urðu mér frábitnir.
14Skyldmenni mín og kunningjar yfirgáfu mig,
15skjólstæðingar fjölskyldu minnar gleymdu mér
og þjónustustúlkum mínum fannst ég framandi,
ég varð sem ókunnugur í augum þeirra.
16Þegar ég kallaði á vinnumann minn svaraði hann ekki,
ég varð að biðja hann sjálfur.
17Kona mín þolir ekki andardrátt minn
og sonum móður minnar finnst ólykt af mér.
18Jafnvel börn fyrirlíta mig.
Þegar ég rís upp andmæla þau mér.
19Trúnaðarvinir mínir forðast mig
og þeir sem mér þykir vænt um snúast gegn mér.
20Bein mín límast við húð mína og hörund.
Ég held þó lífi með naumindum.
21Aumkið mig, aumkið mig, vinir mínir,
því að hönd Guðs hefur snert mig.
22 Hvers vegna ofsækið þér mig eins og Guð
og verðið ekki mettir af holdi mínu?
23 Ég vildi að ummæli mín yrðu skráð,
ég vildi að þau yrðu meitluð sem áletrun
24 með járnmeitli og blýi,
höggvin í klett um aldur og ævi.
25 Ég veit að lausnari minn lifir
og hann mun síðastur ganga fram á foldu.
26 Eftir að þessi húð mín er sundurtætt
og allt hold er af mér mun ég líta Guð.
27 Ég mun líta hann mér til góðs,
augu mín munu sjá hann og engan annan.
Hjartað brennur af þrá í brjósti mér.
28 Ef þér segið: „Vér skulum ofsækja hann
og finna rót ógæfunnar hjá honum,“
29 skuluð þér óttast sverðið
því að fyrir slík brot er refsað með sverði
svo að þér skiljið að dómur er til.