1 Þú skalt elska Drottin, Guð þinn, og ætíð halda fyrirmæli hans, lög, ákvæði og skipanir. 2 Í dag skuluð þið játa að það voru ekki börn ykkar sem sáu og hlutu uppeldi Drottins, Guðs ykkar, heldur þið sem sáuð tign hans, máttuga hönd hans og útréttan arm, 3 táknin og afrekin sem hann vann mitt í Egyptalandi gegn faraó, konungi Egyptalands, og öllu landi hans, 4 hvernig hann fór með her Egypta, hesta þeirra og hestvagna, hvernig hann lét öldur Sefhafsins steypast yfir þá þegar þeir eltu ykkur. Drottinn gereyddi þeim í eitt skipti fyrir öll.
5 Þið sáuð hvað hann gerði fyrir ykkur í eyðimörkinni þar til þið komuð til þessa staðar 6 og hvernig hann fór með Datan og Abíram, syni Elíabs Rúbenssonar, þegar jörðin glennti upp ginið og gleypti þá ásamt fjölskyldum þeirra, tjöldum og öllum búfénaði sem þeim fylgdi. 7 Með eigin augum sáuð þið öll hin miklu máttarverk sem Drottinn vann.
8 Haldið þess vegna öll boðin sem ég set ykkur í dag svo að þið fáið kraft til að komast inn í og fáið til eignar landið sem þið eruð að halda til og slá eign ykkar á, 9 og svo að þið verðið langlíf í landinu sem Drottinn hét að gefa forfeðrum ykkar og niðjum þeirra, landi sem flýtur í mjólk og hunangi. 10 Því að landið, sem þú ert í þann veginn að fara inn í til þess að slá eign á, er ekki eins og Egyptaland sem þið fóruð frá. Þar þurftir þú að vökva akurinn með fæti þínum eins og kálgarð þegar þú hafðir sáð í hann korni. 11 En landið, sem þið eruð í þann veginn að fara inn í til að taka til eignar, er land með fjöllum og dölum sem drekkur í sig regnið sem fellur af himni. 12 Það er land sem Drottinn, Guð þinn, annast: Augu Drottins, Guðs þíns, hvíla sífellt á því frá ársbyrjun til ársloka.
13 Ef þið hlýðið skipunum mínum sem ég legg fyrir ykkur í dag, elskið Drottin, Guð ykkar, og þjónið honum af öllu hjarta og allri sálu 14 mun ég gefa landi ykkar regn á réttum tíma, haustregn og vorregn, svo að þú getir skorið upp korn, vín og olíu. 15 Og ég mun sjá búfé þínu fyrir grasi í haglendi þínu og þú munt eta og verða mettur.
16 En gætið þess að láta ekki ginna ykkur til að víkja af leið og þjóna öðrum guðum og sýna þeim lotningu. 17 Þá mun reiði Drottins blossa upp gegn ykkur og hann lokar himninum svo að ekki mun rigna og akurinn ekkert gefa af sér. Þá verður ykkur brátt eytt úr landinu góða sem Drottinn gefur ykkur.
18 Leggið þessi orð mín ykkur á hjarta og huga, bindið þau sem tákn á hönd ykkar og þau skulu vera merki á milli augna ykkar. 19 Kennið þau börnum ykkar með því að hafa þau yfir, bæði þegar þú ert heima eða á faraldsfæti og þegar þú leggst til svefns og ferð á fætur. 20 Þú skalt skrifa þau á dyrastafi húss þíns og borgarhlið þín 21 til þess að þið og börn ykkar lifið í landinu sem Drottinn hét feðrum ykkar að gefa þeim svo lengi sem himinn er yfir jörðu.
22 Ef þið haldið öll þau boð sem ég set ykkur til þess að framfylgja þeim og elskið Drottin, Guð ykkar, fylgið öllum vegum hans og haldið ykkur fast við hann, 23 mun Drottinn ryðja öllum þessum þjóðum úr vegi ykkar og þið vinna þjóðir sem eru fjölmennari og voldugri en þið.
24 Hver sá staður, sem þið stígið fæti á, skal verða eign ykkar. Land ykkar skal ná frá eyðimörkinni til Líbanons, frá fljótinu, Efratfljótinu, og til hafsins í vestri. 25 Enginn skal geta staðið gegn ykkur. Drottinn, Guð ykkar, mun senda ógn og skelfingu yfir allt landið sem þið stígið á eins og hann hefur heitið ykkur.

Blessun og bölvun

26 Sjá, í dag legg ég fyrir ykkur blessun og bölvun, [ 27 blessunina ef þið hlýðið boðum Drottins, Guðs ykkar, sem ég set ykkur í dag, 28 en bölvunina ef þið hlýðið ekki boðum Drottins, Guðs ykkar, og víkið af veginum sem ég legg fyrir ykkur að ganga og fylgið öðrum guðum sem þið hafið ekki áður þekkt.
29 Þegar Drottinn, Guð þinn, hefur leitt þig inn í landið, sem þú heldur nú inn í til að taka til eignar, skalt þú kunngjöra blessunina á Garísímfjalli og bölvunina á Ebalfjalli. [ 30 Eru þau ekki handan við Jórdan, við veginn til vesturs í landi Kanverja sem búa við Móreeikurnar í Jórdanardal gegnt Gilgal?
31 Þið farið nú yfir Jórdan inn í landið sem Drottinn, Guð ykkar, gefur ykkur til að taka það til eignar. Þegar þið hafið slegið eign ykkar á það og eruð sestir þar að 32 skuluð þið gæta þess að fylgja öllum lögunum og ákvæðunum sem ég legg fyrir ykkur nú í dag.