Fórn fyrir synd æðsta prestsins

1 Drottinn talaði við Móse og sagði:
2 „Ávarpaðu Ísraelsmenn og segðu: Nú syndgar einhver af vangá gegn einhverju því sem Drottinn hefur bannað: 3 Ef presturinn sem smurður hefur verið syndgar og bakar þjóðinni sekt skal hann færa Drottni naut, lýtalaust ungneyti, í syndafórn fyrir þá synd sem hann hefur drýgt. 4 Hann skal leiða nautið að dyrum samfundatjaldsins, fram fyrir auglit Drottins, leggja hönd sína á höfuð nautsins og slátra því frammi fyrir augliti Drottins. 5 Því næst skal smurði presturinn taka nokkuð af blóði nautsins og bera það inn í samfundatjaldið. 6 Presturinn skal dýfa fingri sínum í blóðið og stökkva nokkru af því sjö sinnum frammi fyrir augliti Drottins framan við fortjald helgidómsins. 7 Því næst skal presturinn rjóða nokkru af blóðinu á horn reykelsisaltarisins sem er fyrir framan auglit Drottins í samfundatjaldinu. Því sem eftir er af blóði nautsins skal hann hella á fótstall brennifórnaraltarisins við innganginn að samfundatjaldinu.
8 Síðan skal hann taka allan mörinn úr syndafórnarnautinu, netjuna sem hylur iðrin og allan innyflamörinn, 9 bæði nýrun ásamt nýrnamörnum, sem er innan á mölunum, og lifrarblaðið sem hann skal skilja frá við nýrun, 10 á sama hátt og mörinn var tekinn úr heillafórnarnautinu. Presturinn skal láta þetta líða upp í reyk af brennifórnaraltarinu.
11 Húð nautsins, allt kjötið ásamt höfði, fótum, innyflum og gori, 12 allt sem eftir er af nautinu, skal presturinn fara með út fyrir herbúðirnar á hreinan stað. Hann skal fara með þetta þangað sem fórnaröskunni er hent, leggja það á eldivið og brenna á báli. Það skal brennt þar sem fórnaröskunni er hent.

Fórn fyrir synd safnaðarins

13 Syndgi allur söfnuður Ísraels af vangá án þess að honum sé það ljóst og fremji hann eitthvað sem Drottinn hefur bannað í einhverju af boðum sínum, verður hann sekur. 14 Þegar syndin, sem söfnuðurinn hefur drýgt, verður uppvís skal hann færa naut, stórgrip, í syndafórn og leiða það fram fyrir samfundatjaldið. 15 Þá skulu öldungar safnaðarins leggja hendur á höfuð nautsins frammi fyrir augliti Drottins og slátra því frammi fyrir augliti Drottins. 16 Því næst skal smurði presturinn taka nokkuð af blóði nautsins og færa það inn í samfundatjaldið. 17 Presturinn skal dýfa fingri sínum í blóðið og stökkva því sjö sinnum frammi fyrir augliti Drottins framan við fortjaldið. 18 Þá skal hann rjóða nokkru af blóðinu á horn reykelsisaltarisins sem er frammi fyrir augliti Drottins í samfundatjaldinu. Öllu sem eftir er af blóðinu skal hann hella á fótstall brennifórnaraltarisins sem er við inngang samfundatjaldsins.
19 Því næst skal hann taka allan mörinn úr nautinu og láta hann líða upp í reyk af brennifórnaraltarinu.
20 Hann skal fara með nautið eins og hann fór með syndafórnarnautið, þannig skal hann fara með það.
Þannig friðþægir presturinn fyrir þá og þeim verður fyrirgefið.
21 Hann skal fara með nautið út fyrir herbúðirnar og brenna það eins og hann brenndi fyrra nautið.
Þetta er syndafórn safnaðarins.

Reglur fyrir leiðtoga

22 Syndgi leiðtogi og fremji eitthvað af vangá, sem Drottinn, Guð hans, hefur bannað í einhverju af boðum sínum, verður hann sekur. 23 Þegar honum hefur verið gert ljóst hvaða synd hann hefur drýgt skal hann færa lýtalaust dýr að gjöf. 24 Hann skal leggja hönd sína á höfuð hafursins og slátra honum á sama stað og hann slátraði brennifórnardýrinu, frammi fyrir augliti Drottins. Þetta er syndafórn. 25 Því næst skal presturinn taka nokkuð af blóði syndafórnardýrsins með fingri sínum og rjóða því á horn brennifórnaraltarisins. Öllu sem eftir er af blóði fórnardýrsins skal hann hella á fótstall brennifórnaraltarisins.
26 Allan mörinn úr hafrinum skal hann láta líða upp í reyk af altarinu eins og mör heillafórnardýrsins.
Þannig friðþægir presturinn fyrir syndir leiðtogans og honum verður fyrirgefið.

Fórn fyrir synd einstaklings

27 Syndgi alþýðumaður af vangá og fremji eitthvað, sem Drottinn hefur bannað í einhverju af fyrirmælum sínum, verður hann sekur. 28 Þegar honum hefur verið gert ljóst að hann hefur drýgt synd skal hann færa lýtalaust kvendýr að gjöf fyrir syndina sem hann hefur drýgt. 29 Hann skal leggja hönd sína á höfuð syndafórnardýrsins og slátra því á sama stað og brennifórnardýrinu. 30 Því næst skal presturinn taka nokkuð af blóði þess með fingri sínum og rjóða því á horn brennifórnaraltarisins. Öllu sem eftir er af blóði þess skal hann hella á fótstall altarisins.
31 Því næst skal hann taka allan mörinn eins og mörinn var tekinn úr heillafórnardýrinu og presturinn skal láta hann líða upp í reyk af altarinu sem er Drottni þekkur ilmur.
Þannig friðþægir presturinn fyrir hann og honum verður fyrirgefið.
32 Færi hann lamb að gjöf til syndafórnar skal hann færa fram lýtalausa gimbur. 33 Hann skal leggja hönd sína á höfuð syndafórnardýrsins og slátra því á sama stað og hann slátraði brennifórnardýrinu. 34 Því næst skal presturinn taka nokkuð af blóði syndafórnardýrsins með fingri sínum og rjóða því á horn brennifórnaraltarisins. Öllu sem eftir verður af blóði fórnardýrsins skal hann hella á fótstall altarisins.
35 Því næst skal hann taka allan mörinn eins og mörinn var tekinn úr heillafórnarlambinu. Presturinn skal láta hann líða upp í reyk af altarinu ofan á eldfórnum Drottins.
Þannig friðþægir presturinn fyrir syndina sem hann drýgði og honum verður fyrirgefið.