1 Til söngstjórans. Davíðssálmur.
2Himnarnir segja frá Guðs dýrð,
festingin kunngjörir verkin hans handa.
3Hver dagur kennir öðrum
og hver nótt boðar annarri speki.
4Engin ræða, engin orð,
ekki heyrist raust þeirra.
5Þó berst boðskapur þeirra um alla jörð
og orð þeirra ná til endimarka heims.
Þar reisti hann röðlinum tjald.
6Hann gengur eins og brúðgumi út úr herbergi sínu,
hlakkar sem hetja til að renna skeið sitt.
7Við mörk himins rennur hann upp
og hringferð hans nær til enda himins,
ekkert dylst fyrir geislaglóð hans.
8Lögmál Drottins er lýtalaust,
hressir sálina,
vitnisburður Drottins er áreiðanlegur,
gerir hinn fávísa vitran.
9Fyrirmæli Drottins eru rétt,
gleðja hjartað.
Boðorð Drottins eru skír,
hýrga augun.
10Ótti Drottins er hreinn,
varir að eilífu.
Ákvæði Drottins eru sannleikur,
eru öll réttlát.
11Þau eru dýrmætari en gull,
gnóttir af skíragulli
og sætari en hunang,
hunangseimur.
12Þjónn þinn varðveitir þau af kostgæfni,
að halda þau veitir ríkuleg laun.
13En hver verður var við yfirsjónir?
Sýkna mig af leyndum brotum.
14Varðveit þjón þinn fyrir ofstopamönnum,
lát þá eigi drottna yfir mér.
Þá verð ég lýtalaus
og sýknaður af mikilli sekt.
15Mættu orð mín vera þér þóknanleg
og hugsanir hjarta míns koma fram fyrir þig,
Drottinn, bjarg mitt og frelsari.