1Sjá á fjöllunum fætur fagnaðarboðans,
þess er friðinn kunngjörir.
Hald hátíðir þínar, Júda,
og efn heit þín.
Illskan mun ekki koma yfir þig aftur,
hún er afmáð með öllu.

Fall Níníve

2Tortímandinn stefnir gegn þér.
Vertu á verði og njósnaðu á vegunum.
Gyrtu lendar þínar. Safnaðu þrótti.
3Því að enn hefur Drottinn reist við sæmd Jakobs
og vínvið Ísraels [
þótt spellvirkjar hafi rænt hann
og spillt teinungum hans.
4Skildirnir eru rauðblikandi,
hetjurnar í purpuraklæðum.
Það glóir á málm stríðsvagnanna,
þeir eru búnir til atrennu
og hestarnir prjóna.
5Vagnarnir geysast inn á strætin,
þeytast um torgin
eins og logandi blys,
leiftrandi eldingar.
6Herforingjarnir eru kallaðir til
en hrasa á leið sinni,
hraða sér út að borgarmúrnum,
þar er vígþakið þegar fyrir.
7Flóðgáttum er lokið upp,
skelfing grípur um sig í höllinni.
8Gyðjan er fönguð, útskúfuð,
ambáttir hennar kveina,
líkt og dúfan barmar sér,
og berja sér á brjóst.
9Níníve er eins og lón
sem vatnið fossar úr.
„Stansið! Stansið!“
Enginn snýr við.
10Rænið silfri! Rænið gulli!
Sjóðurinn er óþrjótandi,
ógrynni af hvers kyns dýrgripum!
11Auðn, eyðing, gereyðing!
Huglaus hjörtu, titrandi kné,
skjálfandi lendar, litverp andlit.
12Hvar er nú bæli ljónanna,
hvar hellir ljónshvolpanna
þar sem ljónið gekk óáreitt,
ljónynjan og hvolparnir?
13Þar sem ljónið tætti sundur bráðina
svo að hvolparnir fengju fylli sína,
og drap handa ljónynjum sínum,
fyllti hella sína bráð
og bæli sín ránsfeng.
14Þín vitja ég, segir Drottinn allsherjar,
læt vagna þína eyðast í eldi
og ungviði þitt verða sverði að bráð.
Ránsfeng þínum eyði ég af jörðinni.
Raust sendiboða þinna mun ekki framar heyrast.