1Hjarta konungsins er sem lækir í hendi Drottins,
hann sveigir þá hvert sem honum þóknast.
2Maðurinn telur alla hætti sína rétta
en Drottinn vegur hjörtun.
3Að ástunda réttlæti og rétt
er Drottni þóknanlegra en sláturfórn.
4Drembilát augu og hrokafullt hjarta,
lampi ranglátra er syndin.
5Áform hins iðjusama færa arð
en hroðvirkni endar í örbirgð.
6Fjársjóðir, fengnir með lygum,
eru sem svipull vindblær og snörur dauðans.
7Ráðríki ranglátra feykir þeim burt
því að þeir hafna réttlátri breytni.
8Hlykkjótt er leið hins seka
en verk hins hreina eru vammlaus.
9Betri er dvöl í horni á húsþaki
en sambúð við þrasgjarna konu.
10Hinn rangláti girnist illt,
náungi hans finnur enga miskunn hjá honum.
11Sé spottaranum refsað verður hinn fávísi hygginn
og sé vitur maður fræddur vex hann að viti.
12Hinn réttláti fylgist með húsi hins rangláta
og steypir óguðlegum í ógæfu.
13Sá sem daufheyrist við kveini hins fátæka
mun sjálfur kalla og ekki fá bænheyrslu.
14Gjöf á laun sefar reiði
og umbun í leyni ákafa bræði.
15Réttlátum manni er gleði að gera það sem rétt er
en illvirkjum er það skelfing.
16Sá maður sem villist af vegi viskunnar
mun brátt hvílast í samneyti framliðinna.
17Öreigi verður sá sem sólginn er í skemmtanir,
sá sem sólginn er í vín og olíu verður ekki ríkur.
18Hinn rangláti er lausnargjald hins réttláta
og svikarinn kemur í stað hinna vammlausu.
19Betra er að búa í eyðimörk
en með þrasgjarnri og geðillri konu.
20Dýrmætur fjársjóður og olía er í heimkynnum hins vitra
en heimskur maður sólundar því.
21Sá sem ástundar réttlæti og kærleika
öðlast líf, velgengni og heiður.
22 Vitur maður vann borg kappanna
og reif niður vígið sem hún treysti á.
23 Sá sem gætir munns síns og tungu
forðar sjálfum sér frá nauðum.
24 Sá sem er hrokafullur og dramblátur kallast spottari,
hann lætur stýrast af skefjalausum hroka.
25 Óskir letingjans verða honum að falli,
hendur hans vilja ekki vinna,
26 langanir fylla hug hans daglangt
en hinn réttláti gefur og er ekki naumur.
27 Sláturfórn hins rangláta er Drottni andstyggð,
einkum sé hún færð af illum ásetningi.
28 Falsvottur mun tortímast
en sá sem hlustar grannt er vitnisbær.
29 Illmennið setur upp þóttafullan svip
en hinn vammlausi hyggur að háttum sínum.
30 Engin viska, engin skynsemi,
engin ráð eru til gegn Drottni.
31 Hesturinn er búinn til orrustudagsins
en sigurinn er í hendi Drottins.