Óhjákvæmileg hegning

1 Drottinn sagði við mig: Þó að Móse og Samúel stæðu fyrir augliti mínu vildi ég ekki skipta mér af þessu fólki. Rektu þá frá augliti mínu, þeir eiga að fara burt. 2 Ef þeir þá spyrja: Hvert eigum vér að fara? skaltu svara þeim:
Svo segir Drottinn:
Til dauða sá sem dauða er ætlaður,
til sverðs sá sem sverði er ætlaður,
til hungurs sá sem hungri er ætlaður,
til útlegðar sá sem útlegð er ætlaður.

3 Ég sendi ferns konar refsingu yfir þá, segir Drottinn: sverð til að drepa þá, hunda til að draga þá burtu, fugla himinsins og dýr merkurinnar til að éta þá upp og eyða þeim. 4 Ég læt öll konungsríki jarðar hrylla við þeim vegna þess sem Manasse Hiskíason Júdakonungur gerði í Jerúsalem.
5Hver vorkennir þér, Jerúsalem,
hver hefur samúð með þér?
Hver staldrar við
til að spyrja um líðan þína?
6Þú hafnaðir mér, segir Drottinn,
þú snerir baki við mér,
þess vegna reiddi ég hönd mína gegn þér.
Ég er þreyttur á að sýna miskunn.
7Ég sáldraði þeim með varpskóflu
í borgum landsins,
gerði þjóð mína barnlausa, eyddi henni
þar sem hún breytti ekki háttum sínum.
8Ekkjur þessarar þjóðar urðu fleiri
en sandkorn á sjávarströnd,
um hádegisbil sendi ég eyðanda
gegn mæðrum unglinganna,
lét ógn og skelfingu steypast yfir þær óviðbúið.
9Sjö barna móðir féll í öngvit,
líf hennar fjaraði út.
Sól hennar gekk til viðar um hábjartan dag,
hún var höfð að háði og spotti.
Þá sem eftir voru ofurseldi ég sverðinu
frammi fyrir fjandmönnum þeirra, segir Drottinn.

Harmljóð spámannsins

10Vei mér, móðir, að þú fæddir mig,
mann sem á í málaferlum og deilum við alla landsmenn.
Ég hef engum lánað og enginn hefur lánað mér,
samt formæla mér allir.
11Sannarlega hef ég þjónað þér, Drottinn, með gott í huga,
ég hef beðið fyrir fjandmanni mínum
þegar hann hefur þolað böl og neyð.
12Verður járn mölbrotið, járn að norðan, og eir?
13Ég framsel auð þinn og fjársjóði sem herfang,
það er endurgjald fyrir allar syndir þínar
sem þú hefur drýgt um allt land þitt.
14Ég geri þig að þræli fjandmanna þinna,
í landi sem þú þekkir ekki,
því að reiði mín hefur blossað upp,
hún brennur gegn yður.
15Þú veist það, Drottinn,
minnstu mín og taktu mig að þér.
Hefndu mín á þeim sem ofsækja mig.
Sviptu mér ekki í burtu vegna langlundargeðs þíns,
játaðu að ég þoli smán þín vegna.
16Þegar orð þín komu gleypti ég þau,
orð þín urðu gleði mín.
Hjarta mitt fagnaði
því að ég er kenndur við þig,
Drottinn, Guð hersveitanna.
17Ég sit ekki og gleðst í hópi þeirra sem fagna.
Ég sit einn því að hönd þín hvílir þungt á mér
og þú hefur fyllt mig reiði þinni.
18Hvers vegna er þjáning mín ævarandi,
sár mitt svo illkynjað
að ekki verður grætt?
Þú ert orðinn eins og vatnslaus farvegur,
svikult vatnsból.
19Þess vegna segir Drottinn:
Viljir þú snúa við sný ég þér
svo að þú getir aftur þjónað mér.
Ef þú talar þungvæg orð en ekki léttvæg
skaltu vera munnur minn.
Þá leita menn til þín
en þú mátt ekki leita til þeirra.
20Ég geri þig að rammbyggðum eirvegg
til að verjast þessu fólki.
Þeir munu ráðast á þig en ekki sigra þig
því að ég er með þér,
ég hjálpa þér og frelsa þig, segir Drottinn.
21Ég bjarga þér úr höndum vondra manna
og frelsa þig úr greipum ofbeldismanna.