Fyrirboðar styrjalda

1 Um þetta leyti fór Antíokkus í aðra herferð sína til Egyptalands.
2 Þá bar svo við að vitranir birtust í allri Jerúsalem í nær fjörutíu daga. Birtust mönnum riddarar sem fóru í loftinu, búnir gullofnum skikkjum og vopnaðir lensum. Fóru þeir hópum saman og var þeim fylkt í liðssveitir 3 sem brugðu sverðum og ýmist renndu hver gegn annarri eða hopuðu. Það sást sindra af skjöldum og sæg spjóta. Örvadrífa var og glampaði á gullbúin hertygi og hvers kyns brynjur. 4 Bæn allra var að þetta mætti á gott vita.

Jason ræðst á Jerúsalem

5 Þá kom upp sá lygakvittur að Antíokkus væri allur. Neytti Jason þá færis, safnaði meira en þúsund mönnum og gerði leifturárás á Jerúsalem. Þegar varðliðið á múrunum var brotið á bak aftur og borgin nær öll tekin herskildi flýði Menelaus í virkið. 6 En Jason brytjaði samborgara sína miskunnarlaust niður og lét sér ekki skiljast að það er hin mesta ógæfa að bera sigurorð af samlöndum. Hann ímyndaði sér að hann bæri hærri hlut af óvinum en ekki eigin þjóð. 7 En ekki lánaðist honum þó að hrifsa stjórnartaumana heldur hlaut hann skömm eina að launum fyrir svik sín og hrökklaðist landflótta aftur til Ammón.
8 Að lokum kom ógæfan yfir hann. Hann var kærður fyrir Aretasi, einvaldi Araba, og varð að flýja frá einni borg til annarrar og var ofsóttur og hataður af öllum fyrir lögmálsbrot. Höfðu allir andstyggð á honum sem böðli lands síns og þjóðar. Á för sinni hraktist hann til Egyptalands 9 og þaðan hélt hann sjóleiðina til Spörtu en þar ætlaði hann að leita á náðir ættingja sinna. Þessi maður, sem hrakið hafði svo marga úr landi, bar sjálfur beinin fjarri átthögum sínum. 10 Hann, sem varpað hafði svo mörgum út án þess að jarða þá, var ekki tregaður af neinum og hlaut hvorki útför né leg hjá feðrum sínum.

Antíokkus ræðst á Jerúsalem

11 Þegar konungi bárust tíðindin um það sem við hafði borið taldi hann að uppreisnarástand ríkti í allri Júdeu. Sneri hann því frá Egyptalandi brennandi af heift og lét lið sitt hertaka Jerúsalem. 12 Hann bauð hermönnum sínum að beita vopnum vægðarlaust á hvern sem fyrir yrði og brytja einnig niður þá sem reyndu að komast undan með því að fara upp á húsin. 13 Þeir deyddu unga og gamla, konur og börn voru myrt, meyjum og ungbörnum var slátrað. 14 Á einungis þrem dögum urðu fórnarlömbin áttatíu þúsund. Fjörutíu þúsund voru felld í bardaga og fullt svo margir voru seldir í ánauð.
15 En ekki lét konungur við þetta sitja heldur dirfðist hann að arka inn í helgasta musteri hér á jörðu. Menelaus vísaði honum leiðina en hann hafði þá þegar svikið bæði lögmálið og föðurlandið. 16 Með flekkuðum höndum tók konungur heilög áhöld og lét saurugar greipar sópa um helgigjafir sem aðrir konungar höfðu gefið staðnum til að auka vegsemd hans og prýði.
17 Antíokkus ofmetnaðist og skildi ekki að Drottinn hafði um sinn reiðst íbúum borgarinnar vegna synda þeirra og þess vegna hafði hann gefið helgidóminn honum á vald. 18 Ef borgarbúar hefðu ekki verið syndum hlaðnir hefði Antíokkusi farnast eins og Helíódórusi þegar Selevkus konungur sendi hann til að rannsaka fjárhirsluna. Honum hefði þegar verið refsað með svipuhöggum er hann ruddist inn í musterið og honum aftrað í ofdirfsku sinni. 19 En Drottinn hafði ekki útvalið þjóðina vegna hins helga staðar heldur staðinn hennar vegna. 20 Staðurinn hlaut því fyrst sinn skerf af þeirri ógæfu sem yfir þjóðina gekk en síðar hlutdeild í velgjörðum Guðs. Sakir reiði Hins almáttka hafði hann yfirgefið staðinn en hóf hann til vegs á ný og til mikillar dýrðar þegar hinn máttugi Drottinn var sáttur orðinn.

Enn ráðist á Jerúsalem

21 Eftir að Antíokkus hafði numið á brott úr musterinu átján hundruð talentur hraðaði hann sér til Antíokkíu. Í drambsemi sinni taldi hann sig geta siglt þurrlendið og gengið hafið, svo mjög gekk hroki hans úr öllu hófi. 22 Hann skildi landstjóra eftir til að þjaka þjóðina. Í Jerúsalem var það Filippus, ættaður frá Frýgíu, og var hann hálfu siðlausari en sá sem veitti honum embættið. 23 Á Garísím var það Androníkus og auk þeirra Menelaus sem kúgaði borgarana enn meir en hinir.
Af fjandskap við Gyðinga 24 sendi konungur Appollóníus, sem stýrði mýsískum hersveitum með tuttugu og tvær þúsundir hermanna, og skipaði honum að drepa alla vopnfæra menn en selja konur og æskufólk mansali. 25 Er hann kom til Jerúsalem lét hann sem hann færi með friði og hafðist ekki að fyrr en helgi hvíldardagsins hófst. Þegar hann sá að þá héldu Gyðingar heilagt lét hann menn sína búast vopnum 26 og leggja hvern þann í gegn sem kom til að sjá hvað um væri að vera. Síðan réðst hann inn í borgina með vopnað lið sitt og lagði fjölda manns að velli. 27 En Júdas, sem kallaður var Makkabeus, flýði út í auðnina við níunda mann. Hann hafðist við í fjöllunum ásamt mönnum sínum, líkt og dýr merkurinnar, og höfðu þeir jurtir sér til viðurværis til þess að saurgast ekki af siðleysinu sem ríkti.