Skrúði prestanna

1 Láttu Aron, bróður þinn, og syni hans koma til þín úr söfnuði Ísraelsmanna og þeir skulu þjóna mér sem prestar, Aron, Nadab og Abíhú, Eleasar og Ítamar, synir Arons. 2 Þú skalt gera heilög klæði handa Aroni, bróður þínum, honum til vegsauka og prýði. 3 Þú skalt tala við alla kunnáttumenn sem ég hef fyllt hugvitsanda og þeir skulu gera Aroni klæði til þess að helga hann til að þjóna mér sem prestur. 4 Þetta eru klæðin sem þeir eiga að gera: brjóstskjöldur, hökull, [ kápa, glitofinn kyrtill, höfuðdúkur og belti. Þeir skulu gera heilög klæði handa Aroni, bróður þínum, og sonum hans því að hann á að þjóna mér sem prestur. 5 Til þess eiga þeir að nota gull, bláan purpura, rauðan purpura, skarlat og tvinnað, fínt lín.
6 Þeir skulu gera hökulinn úr gulli, bláum purpura, rauðum purpura og skarlati og tvinnuðu, fínu líni með glitvefnaði. 7 Á honum skulu vera tveir axlahlýrar sem festir eru á báða enda hans svo að unnt verði að binda hann saman. 8 Beltið á höklinum skal vera af sömu gerð og fast við hann, úr gulli, bláum purpura, rauðum purpura, skarlati og tvinnuðu, fínu líni.
9 Þú skalt taka tvo sjóamsteina og grafa á þá nöfn sona Ísraels, 10 sex af nöfnum þeirra á annan steininn og hin sex nöfnin á hinn steininn, eftir aldri þeirra. 11 Þú skalt grafa nöfn sona Ísraels á báða steinana með steinskurði eins og innsigli eru grafin og greypa þá í gullumgjarðir. 12 Þú skalt festa báða steinana á hlýra hökulsins. Þessir steinar skulu minna á syni Ísraels. Aron skal bera nöfn þeirra á báðum öxlum sér, frammi fyrir augliti Drottins, til að minna á syni Ísraels.
13 Þú skalt smíða umgjörð úr gulli 14 og tvær festar úr skíru gulli. Þú skalt flétta þær saman eins og reipi og festa þessa fléttuðu festi við umgjarðirnar.
15 Dómskjöld skaltu gera glitofinn eins og hökulinn. Þú skalt gera hann úr gulli, bláum purpura, rauðum purpura, skarlati og tvinnuðu, fínu líni. 16 Hann á að vera ferhyrndur og tvöfaldur, spannarlangur og spannarbreiður. 17 Þú skalt setja hann steinum í fjórum röðum: rúbín, tópas og smaragð í eina röð, það er fyrsta röðin, 18 granat, safír og jaspis í aðra röðina, 19 ópal, agat og ametýst í þriðju röðina 20 og krýsólít, sjóam og ónyx í hina fjórðu. Steinarnir skulu greyptir í gullumgjörð. 21 Þeir skulu vera tólf og samsvara nöfnum Ísraels sona, tólf eins og nöfn þeirra. Hver þeirra skal bera sitt nafn, grafið eins og í innsigli, eftir tólf ættkvíslum Ísraels. 22 Þú skalt smíða festar úr skíru gulli á brjóstskjöldinn, fléttaðar eins og reipi. 23 Þú skalt einnig gera tvo hringi úr gulli fyrir brjóstskjöldinn og festa báða hringina á tvö horn hans. 24 Síðan skaltu festa báðar gullflétturnar í þessa tvo hringi á hornum brjóstskjaldarins. 25 En hina endana á báðum fléttunum skaltu festa við umgjarðirnar tvær og þær síðan við hlýra hökulsins að framanverðu. 26 Þú skalt gera aðra tvo hringi úr gulli og festa þá í hin tvö horn brjóstskjaldarins innanvert, í þá brún sem veit að höklinum. 27 Enn skaltu gera tvo hringi úr gulli og festa þá neðst á báða hlýra hökulsins að framanverðu þar sem hann er festur saman, ofan við belti hökulsins. 28 Brjóstskjöldinn skal binda með purpurablárri snúru sem á að liggja úr hringjum hans og í hringi hökulsins. Brjóstskjöldurinn á að vera ofan við belti hökulsins svo að hann losni ekki frá höklinum. 29 Aron skal bera nöfn sona Ísraels á dómskildinum á brjósti sér þegar hann gengur inn í helgidóminn til að minna sífellt á þá fyrir augliti Drottins.
30 Þú skalt setja úrím og túmmím í brjóstskjöldinn. Þeir skulu vera við hjarta Arons þegar hann gengur fyrir auglit Drottins. Aron skal þannig sífellt bera dómsúrskurðinn um syni Ísraels við hjarta sér fyrir augliti Drottins.
31 Þú skalt gera kápuna, sem tilheyrir höklinum, úr bláum purpura. 32 Á henni miðri á að vera hálsmál, faldað með ofnum borða, eins og á brynju, svo að ekki rifni út úr. 33 Þú skalt gera granatepli úr bláum purpura, rauðum purpura og skarlati hringinn í kring á slóða hennar og gullbjöllur á milli þeirra hringinn í kring, 34 til skiptis gullbjöllu og granatepli hringinn í kring á slóða kápunnar. 35 Aron á að bera hana þegar hann gegnir þjónustu svo að til hans heyrist þegar hann gengur inn í helgidóminn fram fyrir auglit Drottins og þegar hann gengur út svo að hann deyi ekki.
36 Þú skalt gera blóm úr skíru gulli og grafa í það eins og innsigli: Helgaður Drottni. 37 Þú skalt festa það á purpurabláa snúru og koma henni fyrir á höfuðdúknum. Það á að vera framan á höfuðdúknum 38 á enni Arons því að hann ber ábyrgð á [ öllum helgigjöfum sem Ísraelsmenn bera fram. Blómið skal ávallt vera á enni Arons svo að gjafirnar verði þóknanlegar fyrir augliti Drottins.
39 Þú skalt gera glitofinn kyrtil úr fínu líni, höfuðdúk úr fínu líni og glitofið belti.
40 Þú skalt gera kyrtla handa sonum Arons og búa þeim til belti. Einnig skaltu gera þeim höfuðdúka til vegsemdar og skrauts. 41 Þú skalt færa Aron, bróður þinn, og syni hans í þetta og þú skalt smyrja þá og fylla hendur þeirra og vígja þá til að þjóna mér sem prestar. 42 Þú skalt einnig gera þeim línbuxur til að hylja blygðun þeirra. Þær eiga að ná frá mjöðmum niður á læri. 43 Aron og synir hans skulu vera í þeim þegar þeir ganga inn í samfundatjaldið eða nálgast altarið til að þjóna í helgidóminum svo að þeir baki sér ekki sekt og deyi. Þetta er ævarandi regla fyrir hann og niðja hans eftir hann.