Myrkur yfir Egyptum, eldstólpi lýsir Ísrael

1 Miklir eru dómar þínir og torskildir. Þess vegna villtust þær sálir sem ekki höfðu hlotið fræðslu. 2 Þegar hinir guðlausu hugðust vera að kúga heilagan lýð þá voru þeir fangar í myrkri og lágu fjötraðir um langa nótt í húsum sínum, útskúfaðir frá eilífri forsjón. 3 Þeir tvístruðust felmtraðir vegna ímyndaðra sýna. Þeir töldu að leyndar syndir þeirra mundu hyljast að baki dimmri slæðu gleymskunnar. 4 Jafnvel afkiminn, sem þeir leyndust í, hlífði þeim ekki við ógnum. Allt í kringum þá dundu skelfileg óhljóð og fyrir þá bar ófrýnilega svipi, ógnvekjandi ásýndum. 5 Enginn eldur megnaði að lýsa né máttu leiftur stjarna sín neins til að bregða birtu á hina skelfilegu nótt. 6 Þeir sáu aðeins óttalegt, sjálfkveikt villuljós. Frávita af hinu óþekkta, sem fyrir augu bar, virtist þeim það enn skelfilegra en það var. 7 Fjölkynngi töframanna reyndist gagnslaus og þeir sem gortuðu af þekkingu urðu sér til skammar. 8 Þeir sem þóttust geta hrakið ótta og ofboð frá sjúkum sálum urðu sjálfir gagnteknir hlálegri hræðslu. 9/10 Það sem skelfdi þá var skaðlaust. Samt voru þeir skelfingu lostnir við suðið í pöddunum og hvæsið í snákunum. Þeir áræddu ekki einu sinni að horfa út í loftið sem enginn kemst þó hjá. 11 Því að huglaus er vonskan og hlýtur sinn dóm fyrir eigin vitnisburð, bitin af samviskunni býst hún við hinu versta. 12 Óttinn felst í því að stoð skynseminnar brestur. 13 Því veikari sem hinn úrræðalausi er innra með sér þeim mun fúsari er hann að loka augum fyrir því sem kvöl hans veldur.
14 Þeir sem sváfu þessa máttarvana nótt, sem kom úr magnlausum afkimum heljar, kvöldust allir á sama hátt: 15 Þeir voru ýmist ásóttir af ímynduðum vofum eða urðu viti sínu fjær því að sviplega og óvænt helltist skelfing yfir þá. 16 Hver og einn féll þar sem hann stóð. Hann luktist inni í fangelsi sem þó var enginn slagbrandur fyrir. 17 Hvort sem það var bóndi eða hirðingi eða einyrki og erfiðismaður, þá skall þetta yfir hann, enginn gat vikist undan. 18 Allir hnepptust í sama myrkrafjötur. Hvort sem þeir heyrðu þyt vindsins eða þýðan fuglasöng í laufguðum greinum eða niðandi foss 19 eða þungar drunur frá hrapandi björgum eða fótatak stökkvandi dýra, sem sáust þó ekki, eða öskur í hræðilegustu óargadýrum eða bergmál, sem kvað við í gljúfrum, allt skelfdi þetta þá og dró úr þeim allan mátt.
20 En allur heimur var baðaður skærri birtu og menn gengu til verka án vandkvæða. 21 En yfir þá eina breiddist þungt náttmyrkrið, ímynd þess myrkurs sem þeir stefndu í. En sjálfum sér voru þeir meiri byrði en myrkrið.