1 Þið skuluð halda kostgæfilega sérhvert boð sem ég set ykkur. Þú skalt engu við auka né heldur draga nokkuð undan.[
2 Komi spámaður eða draumamaður fram ykkar á meðal og boði þér tákn og undur 3 og táknið eða undrið rætist og hann segir: „Við skulum fylgja öðrum guðum en þeim sem þið hafið þekkt áður og við skulum þjóna þeim,“ 4 skaltu ekki hlusta á orð þessa spámanns eða draumamanns því að Drottinn, Guð ykkar, er að reyna ykkur til að komast að því hvort þið elskið Drottin, Guð ykkar, af öllu hjarta ykkar og allri sálu.
5 Þið skuluð fylgja Drottni, Guði ykkar, óttast hann, halda boðorð hans, hlýða á boðskap hans, þjóna honum og halda ykkur fast við hann. 6 En spámanninn eða draumamanninn skal taka af lífi því að hann hefur hvatt til fráhvarfs frá Drottni, Guði ykkar, sem leiddi ykkur út úr Egyptalandi og keypti ykkur frjáls úr þrælahúsinu. Hann reyndi að tæla þig af þeim vegi sem Drottinn, Guð þinn, hefur boðið þér að ganga. Þú skalt eyða hinu illa þín á meðal.
7 Ef bróðir þinn sammæðra, sonur, dóttir, konan í faðmi þínum eða vinur, sem þú elskar eins og sjálfan þig, reynir á laun að leiða þig afvega með því að segja: „Við skulum þjóna öðrum guðum,“ sem hvorki þú né forfeður þínir hafa þekkt, 8 einhverjum af guðum þjóðanna sem búa í kringum ykkur, nær eða fjær frá einu heimskauti til annars, 9 skalt þú ekki láta undan honum og ekki hlusta á hann. Þú skalt hvorki hafa samúð með honum, hlífa honum né hylma yfir með honum 10 heldur skaltu taka hann af lífi. Þú skalt vera fyrstur til að leggja hönd á hann til að taka hann af lífi. Því næst skal allt fólkið leggja á hann hendur. 11 Þú skalt grýta hann til bana því að hann reyndi að tæla þig frá Drottni, Guði þínum, sem leiddi þig út úr Egyptalandi, út úr þrælahúsinu.
12 Allur Ísrael skal heyra um þetta svo að hann skelfist og enginn vinni framar slíkt illvirki mitt á meðal þín.
13 Ef til vill heyrir þú sagt um einhverja af borgum þeim sem Drottinn, Guð þinn, gefur þér til að búa í: 14 „Illmenni af þinni eigin þjóð hafa leitt íbúa borgarinnar afvega með því að segja: Við skulum fara og þjóna öðrum guðum sem þið hafið ekki þekkt áður.“
15 Þá skalt þú rannsaka þetta rækilega, spyrjast fyrir og grennslast eftir. Reynist þetta rétt og það sannast að þessi viðurstyggð hafi verið framin þín á meðal, 16 skaltu höggva íbúa þessarar borgar með sverði, helga borgina banni og allt sem í henni er ásamt búfénaði. 17 Öllu herfangi skaltu safna saman mitt á markaðstorgi borgarinnar. Því næst skaltu brenna borgina og allt herfangið í eldi sem alfórn handa Drottni, Guði þínum. Hún skal verða ævarandi rúst og aldrei verða endurreist 18 og ekkert af hinu bannfærða máttu taka til handargagns.
Þá mun Drottinn láta af brennandi heift sinni og sýna þér miskunn. Þá mun hann aftur miskunna sig yfir þig og fjölga þér eins og hann hét forfeðrum þínum 19 af því að þú hlýðir boði Drottins, Guðs þíns, og heldur öll boðorð hans, sem ég set í dag, og gerir það sem er rétt í augum Drottins, Guðs þíns.