Jetró hjá Móse

1 Þegar Jetró, prestur í Midíanslandi, tengdafaðir Móse, heyrði um allt það sem Guð hafði gert fyrir Móse og lýð sinn, Ísrael, þegar Drottinn leiddi Ísrael út úr Egyptalandi 2 tók Jetró, tengdafaðir Móse, með sér Sippóru, eiginkonu Móse, sem hann hafði sent aftur heim, 3 og báða syni hennar. Annar hét Gersóm [ því að Móse hafði sagt: „Ég er aðkomumaður í framandi landi.“ 4 Hinn hét Elíeser [ „því að Guð föður míns var hjálp mín og frelsaði mig undan sverði faraós“.
5 Jetró, tengdafaðir Móse, kom nú ásamt sonum hans og eiginkonu út í eyðimörkina þar sem Móse hafði búðir sínar við fjall Guðs. 6 Hann lét flytja Móse þessi boð: „Ég, tengdafaðir þinn, er kominn til þín ásamt eiginkonu þinni og báðum sonum.“ 7 Móse gekk þá til móts við tengdaföður sinn, laut honum og kyssti hann. Þegar þeir höfðu heilsast gengu þeir inn í tjaldið.
8 Móse skýrði tengdaföður sínum frá öllu sem Drottinn hafði gert faraó og Egyptum vegna Ísraels, frá öllu því mótlæti sem þeir höfðu orðið fyrir á leiðinni og hvernig Drottinn hafði bjargað þeim. 9 Jetró gladdist yfir öllu hinu góða sem Drottinn hafði gert fyrir Ísrael þegar hann bjargaði honum úr greipum Egypta. 10 Jetró sagði: „Lofaður sé Drottinn sem bjargaði ykkur úr greipum Egypta og faraós. 11 Nú veit ég að Drottinn er öllum guðum meiri vegna þess að hann bjargaði þjóðinni undan kúgun Egypta sem sýndu Ísrael hroka.“ 12 Síðan færði Jetró, tengdafaðir Móse, Guði dýr að brennifórn og sláturfórn og Aron kom ásamt öllum öldungum Ísraels til að halda máltíð frammi fyrir augliti Drottins.
13 Daginn eftir tók Móse sér sæti til að rétta í málum manna. Fólkið stóð frammi fyrir Móse frá morgni til kvölds. 14 Þegar tengdafaðir Móse sá hve mörgu hann þurfti að sinna fyrir fólkið sagði hann: „Hvað er þetta sem þú ert að gera fyrir fólkið? Hvers vegna situr þú hér einn á meðan allt fólkið stendur frammi fyrir þér frá morgni til kvölds?“ 15 Móse svaraði tengdaföður sínum: „Fólkið kemur til mín til að leita svara hjá Guði. 16 Eigi það í deilum kemur það til mín og ég sker úr milli manna og kunngjöri ákvæði og lög Drottins.“ 17 Þá sagði tengdafaðir Móse við hann: „Þú ferð ekki rétt að. 18 Þú gerir bæði sjálfan þig og fólkið, sem hjá þér er, örþreytt. Þetta er þér of erfitt, þú getur ekki sinnt þessu einn. 19 Hlustaðu nú á mig, ég skal gefa þér ráð og Guð verður með þér. Þú skalt sjálfur standa frammi fyrir Guði fyrir þjóðina og sjálfur leggja málin fyrir Guð. 20 Þú skalt leggja þjóðinni á hjarta ákvæðin og lögin, vísa henni veginn sem hún á að ganga og sýna henni hvaða verk hún á að vinna. 21 Þú skalt velja meðal allrar þjóðarinnar dugandi og guðhrædda menn, trausta menn sem ekki eru mútuþægir. Þú skalt setja þá yfir fólkið sem foringja yfir þúsund manna flokkum, yfir hundrað manna, fimmtíu manna og tíu manna flokkum. 22 Þeir skulu rétta í málum fólksins hvenær sem þess gerist þörf. Öll stærri mál skulu þeir leggja fyrir þig en í öllum minni háttar málum skulu þeir dæma. Léttu þannig byrði þína og láttu þá bera hana með þér. 23 Ef þú gerir þetta mun þér takast það sem Guð felur þér. Þá getur allt þetta fólk farið ánægt heim til sín.“
24 Móse hlustaði á tengdaföður sinn og fór að öllu eins og hann hafði sagt. 25 Móse valdi dugandi menn úr öllum Ísrael og gerði þá að höfðingjum yfir þjóðinni, foringjum þúsund manna, foringjum hundrað manna, fimmtíu manna og tíu manna. 26 Þeir áttu að dæma fólkið hvenær sem þess gerðist þörf. Erfið mál lögðu þeir fyrir Móse en dæmdu sjálfir í öllum minni háttar málum.
27 Síðan kvaddi Móse tengdaföður sinn og hann hélt heim til lands síns.