Elía og hrafnarnir

1 Spámaðurinn Elía frá Tisbe í Gíleað sagði við Akab:
„Svo sannarlega sem Drottinn, Guð Ísraels, sem ég þjóna, lifir, þá skal hvorki falla dögg né regn þessi ár nema ég skipi svo fyrir.“ 2 Þá kom orð Drottins til hans:
3 „Farðu héðan, haltu í austur. Feldu þig við lækinn Krít sem er austan við Jórdan. 4 Þú skalt drekka úr læknum og ég hef skipað hröfnunum að fæða þig þar.“
5 Elía hélt af stað og gerði það sem Drottinn hafði boðið, fór og settist að við lækinn Krít sem er austan við Jórdan. 6 Hrafnarnir færðu honum brauð og kjöt á hverjum morgni og sömuleiðis brauð og kjöt að kvöldi og hann drakk úr læknum. 7 Nokkru síðar þornaði lækurinn upp því að ekki hafði komið skúr á jörð.

Elía og ekkjan í Sarefta

8 Þá kom orð Drottins til Elía:
9 „Búðu þig og farðu til Sarefta sem er rétt hjá Sídon og sestu þar að. Ég hef falið ekkju nokkurri, sem þar býr, að fæða þig.“
10 Elía bjóst til ferðar og hélt af stað til Sarefta. Þegar hann kom að borgarhliðinu var þar ekkja nokkur að tína saman sprek. Hann kallaði til hennar og sagði: „Færðu mér vatnssopa í krús að drekka.“ 11 Þegar hún fór að sækja vatnið kallaði hann til hennar: „Færðu mér brauðbita um leið.“ 12 En hún svaraði: „Svo sannarlega sem Drottinn, Guð þinn lifir á ég ekkert brauð. Ég á aðeins mjölhnefa í krukku og örlitla olíu í krús. Ég er að tína saman nokkur sprek, síðan ætla ég heim að matreiða þetta handa mér og syni mínum. Þegar við höfum matast getum við dáið.“ 13 Elía sagði við hana: „Óttastu ekki. Farðu heim og gerðu það sem þú sagðir. En bakaðu fyrst lítið brauð og færðu mér, síðan skaltu matreiða handa þér og syni þínum. 14 Því að svo segir Drottinn, Guð Ísraels: Mjölkrukkan skal ekki tæmast, olíukrúsin ekki þorna fyrr en Drottinn lætur rigna á jörðina.“ 15 Ekkjan fór og gerði eins og Elía hafði sagt. Höfðu hún, Elía og sonur hennar, öll nóg að borða um langa hríð. 16 Mjölkrukkan tæmdist ekki og ekki þraut olíu í krúsinni. Það var í samræmi við orð Drottins sem hann hafði flutt af munni Elía.
17 Nokkru síðar bar svo við að sonur konunnar, sem átti húsið, veiktist. Honum þyngdi svo mjög að hann gaf að lokum upp andann. 18 Þá sagði hún við Elía: „Hvað viltu mér, guðsmaður? Ertu aðeins kominn til að minna mig á synd mína og svipta son minn lífi?“ 19 Elía svaraði: „Fáðu mér son þinn.“ Síðan tók hann drenginn úr fangi hennar, bar hann upp á loft í herbergi hans og lagði hann á rúm sitt. 20 Hann hrópaði til Drottins og sagði: „Drottinn, Guð minn, ætlar þú að senda það böl yfir ekkjuna, sem skotið hefur yfir mig skjólshúsi, að svipta son hennar lífi?“ 21 Því næst teygði hann sig þrisvar yfir drenginn og hrópaði til Drottins og sagði: „Drottinn, Guð minn, gefðu þessum dreng aftur líf.“ 22 Drottinn bænheyrði Elía, gaf drengnum aftur líf og hann lifnaði við. 23 Elía tók þá drenginn upp og bar hann niður úr loftherberginu og gaf hann móður hans. Að svo búnu sagði Elía: „Sjá, sonur þinn lifir.“ 24 En konan sagði við Elía: „Nú veit ég að þú ert guðsmaður og að orð Drottins er sannarlega á vörum þínum.“