Gegn Damaskus

1 Boðskapur um Damaskus:
Damaskus verður eytt sem borg
og hún lögð í rúst.
2Borgirnar í Aróer verða yfirgefnar,
þær verða að bithögum
þar sem hjarðir leggjast og enginn styggir þær.
3Varnarvirkið í Efraím mun hverfa
og konungdómurinn frá Damaskus
og fyrir leifum Arams mun fara
eins og vegsemd Ísraelsmanna,
segir Drottinn allsherjar.
4Á þeim degi mun glæsileiki Jakobs dvína
og fitan á líkama hans rýrna.
5Þá mun fara líkt og þegar kornskurðarmaður
safnar kornstönglum í fangið
og sníður af öxin með hendinni,
líkt og þegar öx eru tínd í Refaímdal.
6En þar verður eftirtekja
eins og þegar ólífutré er skekið,
tvær eða þrjár ólífur á efstu greinum,
fjórar eða fimm í limi ávaxtatrésins,
segir Drottinn, Guð Ísraels.

7 Á þeim degi mun maðurinn horfa til skapara síns og beina sjónum til Hins heilaga Ísraels. 8 Hann mun ekki horfa á ölturun, verk handa sinna sem fingur hans sjálfs gerðu, og ekki heldur á Asérustólpana né reykelsisölturun.
9 Á þeim degi munu víggirtar borgir hans verða eins og mannauðar borgir sem Hevítar og Amorítar yfirgáfu vegna framsóknar Ísraelsmanna, og landið verða að eyðimörk.
10Þú hefur gleymt Guði hjálpræðis þíns
og minnist ekki klettsins sem er hæli þitt
því að þú gróðursetur garða handa Hinum yndislega
og plantar þar framandi teinungum,
11kemur þeim til sama dag og þú setur þá niður
og lætur þá blómstra morguninn sem þú plantar þeim.
Uppskeran er horfin á degi sjúkdóms og óbærilegra kvala.

Árásarmenn reknir á flótta

12Vei! Gnýr fjölda þjóða
eins og brimgnýr,
niður frá þjóðflokkum
eins og niður mikilla fossa.
13Drottinn hastar á þá og þeir flýja langt í burt,
þeir feykjast burt á fjöllum eins og hismi,
eins og rykmökkur fyrir stormi.
14Að kvöldi hvolfist óttinn yfir
en fyrir dögun eru þeir á burt.
Þetta er hlutskipti þeirra sem ræna oss,
hlutur þeirra sem stela frá oss.