1Nei, öll von manna bregst,
það eitt að sjá hann leggur þá að velli.
2Enginn dirfist að egna hann.
Hver getur staðið fyrir augliti hans?
3Hver ræðst gegn honum og sleppur heill frá því?
Ekki nokkur, neins staðar undir himninum.
4Ég ætla ekki að þegja um limi hans,
afl hans og fagran vöxt.
5Hver hefur svipt hann ytri klæðum sínum,
brotist gegnum tvöfalda brynju hans?
6Hver hefur opnað hliðin að gini hans?
Tennur hans vekja skelfingu.
7Hryggur hans er skjaldaröð,
fest með innsigli úr kísilsteini,
8hver skjöldur liggur að öðrum
svo að loft kemst hvergi á milli,
9einn er greyptur í þann næsta,
þeir eru og verða ekki skildir að.
10Hnerri hans kveikir eld
og augu hans líkjast hvörmum morgunroðans.
11Logar standa úr gini hans,
neistar fljúga út úr honum,
12úr nösum hans stendur eimur
eins og úr glóheitum, sjóðandi potti.
13Andgustur hans kyndir í kolum,
úr gini hans stendur eldslogi.
14Kraftur situr í hnakka hans
og óttinn stekkur á undan honum.
15Kviðvöðvar hans eru stinnir,
steyptir á hann og hrærast ekki.
16Hjarta hans er hart sem steinn,
stöðugt eins og neðri kvarnarsteinn.
17Þegar hann reisir sig skelfast jafnvel guðir
og hörfa af ótta.
18Sverð vinnur ekki á honum,
né lensa, spjót eða ör.
19Hann metur járn sem hálmstrá,
eir eins og maðksmoginn við.
20Örin rekur hann ekki á flótta,
gegn honum verða slöngvusteinar að hálmi,
21kylfan er honum strá,
hann hlær að vopnabraki.
22 Kviður hans er alsettur hvössum broddum,
hann myndar breið för í eðjuna eins og þreskisleði.
23 Hann lætur djúpið vella eins og ketil,
hafið gerir hann að smyrslapotti,
24 rákin á eftir honum glitrar,
hafdjúpið líkist silfurhærum.
25 Enginn er jafnoki hans á jörðu,
hann var skapaður óttalaus.
26 Hann horfir á allt sem er hátt,
er konungur allra stoltra dýra.