Örkin í höndum Filistea

1 Filistear höfðu tekið örk Guðs herfangi og flutt hana frá Ebeneser til Asdód. 2 Nú tóku þeir örk Guðs og fluttu hana í hús Dagóns og komu henni fyrir við hliðina á Dagón. 3 Morguninn eftir, þegar Asdódbúar fóru á fætur, hafði Dagónlíkneskið fallið til jarðar og lá á grúfu fyrir framan örk Drottins. Þeir tóku þá Dagón og settu hann aftur á sinn stað. 4 Þegar þeir fóru á fætur næsta morgun hafði Dagón enn fallið til jarðar og lá á grúfu fyrir framan örk Drottins. Höfuð og hendur höfðu brotnað af Dagón þegar hann féll á þröskuldinn, bolurinn einn var eftir. 5 Þetta er ástæða þess að prestar Dagóns og aðrir, sem ganga í hús Dagóns, stíga aldrei á þröskuld Dagóns í Asdód allt til þessa dags.
6 Hönd Drottins lagðist þungt á Asdódbúa. Hann skelfdi þá og sló þá kýlum, bæði íbúana í Asdódborg og héraðinu umhverfis. 7 Þegar það rann upp fyrir Asdódbúum hvað gerst hafði sögðu þeir: „Við getum ekki lengur varðveitt örk Ísraels Guðs því að hönd hans leggst þungt á okkur og Dagón, guð okkar.“
8 Þá sendu þeir menn, sem stefndu saman öllum höfðingjum Filistea, og spurðu þá: „Hvað eigum við að gera við örk Ísraels Guðs?“ Þeir svöruðu: „Það á að flytja örk Ísraels Guðs til Gat.“ Því næst var örk Ísraels Guðs flutt þangað.
9 Þegar örkin hafði verið flutt til Gat lagðist hönd Drottins þungt á borgina og olli mikilli skelfingu. Hann sló borgarbúa kýlum, unga sem gamla.
10 Þá var örk Guðs send til Ekron. Þegar hún kom þangað hrópuðu borgarbúar: „Örk Ísraels Guðs hefur verið flutt til okkar til að deyða okkur og þjóð okkar.“ 11 Þá sendu þeir menn, sem stefndu saman öllum höfðingjum Filistea, og sögðu: „Losið ykkur við örk Ísraels Guðs. Sendið hana aftur þangað sem hún á heima svo að hún drepi okkur ekki og þjóðina alla.“
Allir borgarbúar voru felmtri slegnir því að hönd Guðs lagðist mjög þungt á þá. 12 Þeir sem héldu lífi voru slegnir kýlum og kvein borgarbúa steig til himins.