1 Á dögum hans réðst Nebúkadnesar Babýloníukonungur gegn honum og varð Jójakím undirkonungur hans í þrjú ár. Þá söðlaði hann um og gerði uppreisn. 2 Drottinn sendi ræningjaflokka frá Kaldeu, Arameu, Móab og Ammón gegn Jójakím. Hann sendi þá gegn Júda til að eyða landið samkvæmt orði Drottins sem hann hafði flutt af munni þjóna sinna, spámannanna. 3 Þetta kom yfir Júda samkvæmt boði Drottins: Hann ætlaði að hrekja Júda frá augliti sínu vegna synda Manasse og allra illvirkjanna sem hann vann, 4 einkum vegna hins saklausa blóðs sem hann hafði úthellt. Hann fyllti Jerúsalem af saklausu blóði og það vildi Drottinn ekki fyrirgefa.
5 Það sem ósagt er af sögu Jójakíms og verkum hans er skráð í annála Júdakonunga. 6 Jójakím var lagður til hvíldar hjá feðrum sínum. Jójakín, sonur hans, varð konungur eftir hann.
7 Konungur Egyptalands fór enga herför framar úr landi sínu því að Babýloníukonungur hafði tekið allt landsvæðið frá Egyptalandsá að Efratfljóti sem áður hafði heyrt Egyptalandskonungi til.

Jójakín Júdakonungur

8 Jójakín var átján ára þegar hann varð konungur og ríkti í Jerúsalem þrjá mánuði. Móðir hans hét Nehústa Elnatansdóttir frá Jerúsalem. 9 Hann gerði það sem illt var í augum Drottins eins og faðir hans.
10 Um þær mundir fóru menn Nebúkadnesars Babýloníukonungs í herför gegn Jerúsalem og settust um borgina. 11 Á meðan menn hans sátu um hana kom Nebúkadnesar Babýloníukonungur til borgarinnar. 12 Þá gekk Jójakín Júdakonungur út til Babýloníukonungs ásamt móður sinni, embættismönnum, höfðingjum og hirðmönnum. Babýloníukonungur tók hann þegar í stað til fanga. Þetta var á áttunda stjórnarári hans. 13 Eins og Drottinn hafði boðað flutti Nebúkadnesar alla fjársjóðina úr musteri Drottins og húsi konungsins og lét brjóta öll gulláhöldin sem Salómon Ísraelskonungur hafði látið gera fyrir musteri Drottins.

Fyrsta herleiðingin til Babýlonar

14 Hann flutti alla íbúa Jerúsalem í útlegð, alla höfðingja og alla þá sem máttu sín nokkurs, alls tíu þúsund, og alla trésmiði og málmsmiði. Fátæk alþýðan var ein skilin eftir.
15 Hann flutti Jójakín í útlegð til Babýloníu ásamt konungsmóðurinni og konum konungs. Hann flutti einnig hirðmenn hans og áhrifamenn landsins frá Jerúsalem til Babýlonar, 16 sömuleiðis alla vopnfæra menn, sjö þúsund talsins, og trésmiði og málmsmiði, þúsund menn, sem allir voru reyndir í hernaði. Alla þessa menn flutti Babýloníukonungur í útlegð til Babýloníu.
17 Síðan gerði Babýloníukonungur Mattanja, föðurbróður Jójakíns, að konungi í hans stað og breytti nafni hans í Sedekía.

Sedekía Júdakonungur

18 Sedekía var tuttugu og eins árs þegar hann varð konungur og ríkti í Jerúsalem ellefu ár. Móðir hans hét Hamútal Jeremíadóttir frá Líbna. 19 Hann gerði það sem illt var í augum Drottins eins og Jójakím. 20 Vegna reiði Drottins fór þannig fyrir Jerúsalem og Júda og þar kom að hann rak þau frá augliti sínu.