Síon frelsuð

1Vakna þú, vakna,
íklæð þig styrk þínum, Síon,
klæð þig skartklæðum þínum, Jerúsalem,
þú heilaga borg,
því að enginn óumskorinn eða óhreinn
skal framar inn í þig ganga.
2Hristu af þér rykið, rístu upp,
þú hernumda Jerúsalem,
leystu fjötrana af hálsi þér,
þú hertekna dóttir Síon.
3Því að svo segir Drottinn:
Þér voruð seldir fyrir ekkert
og verðið leystir án endurgjalds.
4Svo segir Drottinn Guð:
Í öndverðu fór þjóð mín til Egyptalands
til að dveljast þar sem aðkomumenn,
en síðast kúgaði Assýría hana.
5En hvað get ég nú tekið til bragðs,
segir Drottinn,
þar sem þjóð mín var tekin án endurgjalds
og stjórnendur hennar kveina,
segir Drottinn,
og allan liðlangan daginn
er nafn mitt sífellt smáð?
6Þess vegna skal þjóð mín játa nafn mitt
og reyna á þeim degi að það er ég sem segi:
Hér er ég.

Fagnaðarboðinn

7Hversu yndislegir eru á fjöllunum fætur fagnaðarboðans
sem friðinn kunngjörir,
gleðitíðindin flytur,
hjálpræðið boðar og segir við Síon:
„Guð þinn er sestur að völdum.“
8Heyr, varðmenn þínir hefja upp raustina,
hrópa fagnaðaróp allir í einu
því að með eigin augum
sjá þeir Drottin hverfa aftur til Síonar.
9Hefjið upp fagnaðarsöng allar í einu,
rústir Jerúsalem,
því að Drottinn hefur huggað þjóð sína,
endurleyst Jerúsalem.
10Drottinn hefur afhjúpað heilagan armlegg sinn
í augsýn allra þjóða
og allt til endimarka jarðar
munu menn sjá hjálpræði Guðs vors.

Hvatt til brottfarar

11Farið burt, farið burt,
haldið af stað þaðan.
Snertið ekkert óhreint,
haldið burt frá borginni, hreinsið yður,
þér sem berið ker Drottins.
12En þér skuluð ekki halda burt í flýti
né fara með skyndingu
því að Drottinn fer fyrir yður
og Guð Ísraels gengur á eftir.

Hinn líðandi þjónn Drottins

13Sjá, þjónn minn mun giftusamur verða,
hann mun verða mikill og veglegur og hátt upp hafinn.
14Eins og marga hryllti við honum,
svo afskræmdur var hann ásýndum
að vart var á honum mannsmynd,
15eins mun hann vekja undrun margra þjóða
og konungar munu verða orðlausir frammi fyrir honum
því að þeir munu sjá það sem enginn hefur sagt þeim
og verða þess áskynja sem þeir hafa aldrei heyrt.