1 Við vitum að þótt jarðnesk tjaldbúð okkar verði rifin niður þá höfum við hús frá Guði, eilíft hús á himnum sem eigi er með höndum gert. 2 Á meðan andvörpum við og þráum að íklæðast húsi okkar frá himnum. 3 Þegar við íklæðumst því munum við ekki standa uppi nakin. 4 En á meðan við erum í tjaldbúðinni stynjum við mædd. Við viljum ekki afklæðast forgengilegum líkama okkar heldur íklæðast óforgengilegum líkama til þess að dauðleg tilvera okkar umbreytist og verði eilíf. 5 En það er Guð sem er að verki í okkur og gerir okkur þetta fært og hann hefur gefið okkur anda sinn sem tryggingu.
6 Ég er því ávallt hughraustur þótt ég viti að meðan ég lifi á jörðinni er ég að heiman frá Drottni 7 því að við lifum í trú án þess að sjá. 8 Já, ég er hughraustur og mig langar öllu fremur til að hverfa burt úr líkamanum og vera heima hjá Drottni. 9 Þess vegna kosta ég kapps um, hvort sem ég er heima eða að heiman, að vera honum þóknanlegur. 10 Því að öllum ber okkur að birtast fyrir dómstóli Krists til þess að sérhver fái það endurgoldið sem hann hefur aðhafst í lifanda lífi, hvort sem það er gott eða illt.

Guð sætti heiminn við sig

11 Með því að ég nú veit hvað það er að óttast Drottin leitast ég við að sannfæra menn. En Guð gjörþekkir mig, ég vona að þið gerið það einnig í hjörtum ykkar. 12 Ekki er ég enn farinn að mæla með sjálfum mér við ykkur heldur er ég að gefa ykkur tilefni til að miklast af mér svo að þið getið svarað þeim sem hrósa sér af hinu ytra en ekki af hjartaþelinu. 13 Enda þótt ég hafi fallið í leiðslu og talað tungum þá varðar það Guð. Þegar ég er með sjálfum mér þá er það vegna ykkar. 14 Kærleiki Krists knýr mig því að ég hef ályktað svo: Ef einn er dáinn fyrir alla þá eru allir dánir. 15 Og hann er dáinn fyrir alla til þess að þeir sem lifa lifi ekki framar sjálfum sér heldur honum sem fyrir þá er dáinn og upprisinn.
16 Þannig met ég héðan í frá engan að mannlegum hætti. Þótt ég og hafi þekkt Krist sem mann þekki ég hann nú ekki framar þannig. 17 Ef einhver er í Kristi er hann orðinn nýr maður, hið liðna varð að engu, nýtt er orðið til. 18 Allt er frá Guði sem sætti mig við sig fyrir Krist og gaf mér þjónustu sáttargerðarinnar. 19 Því að það var Guð sem í Kristi sætti heiminn við sig er hann tilreiknaði mönnum ekki afbrot þeirra og fól mér að boða orð sáttargjörðarinnar.
20 Ég er því erindreki Krists sem Guð notar til að hvetja ykkur. Ég bið í orðastað Krists: Látið sættast við Guð. 21 Guð dæmdi Krist, sem þekkti ekki synd, sekan í okkar stað til þess að hann gerði okkur réttlát í Guðs augum.