Enn um Elísa og konuna frá Súnem

1 Elísa sagði við móður drengsins er hann hafði lífgað: „Búðu þig til ferðar og farðu burt, þú og fjölskylda þín. Leitaðu hælis þar sem þú getur því að Drottinn hefur kallað hungursneyð yfir landið. Hún kemur nú yfir landið og mun standa í sjö ár.“ 2 Konan bjóst til ferðar og gerði eins og guðsmaðurinn hafði ráðlagt henni. Hún fór ásamt fjölskyldu sinni og leitaði hælis í landi Filistea og dvaldist þar í sjö ár.
3 Að sjö árum liðnum sneri konan aftur frá landi Filistea og fór til konungsins til að biðja um hjálp til að fá aftur hús sitt og akur. 4 Konungur var þá að tala við Gehasí, þjón guðsmannsins, og hafði sagt við hann: „Segðu mér frá öllum afrekunum sem Elísa hefur unnið.“ 5 Þegar Gehasí var að segja konungi frá því hvernig Elísa hafði lífgað hinn látna kom móðir drengsins, sem hann hafði lífgað, og bað konung um aðstoð við að fá aftur hús sitt og akur. Þá sagði Gehasí: „Herra minn og konungur. Þetta er konan og þetta er sonur hennar sem Elísa lífgaði.“ 6 Þegar konungur spurði konuna sjálfa sagði hún honum frá öllu. Konungurinn fékk henni þá einn hirðmanna sinna til aðstoðar og sagði við hann: „Sjáðu um að hún fái allar eigur sínar aftur, einnig allan afrakstur af akrinum frá því að hún fór úr landinu og allt til þessa dags.“

Elísa og Hasael

7 Einhverju sinni, þegar Elísa kom til Damaskus, lá Benhadad Aramskonungur veikur. Honum var tilkynnt að guðsmaðurinn væri kominn. 8 Hann sagði þá við Hasael: „Hafðu með þér gjöf, farðu til móts við guðsmanninn og bið hann að leita um það svara hjá Drottni hvort ég muni ná mér af sjúkdómi mínum.“
9 Hasael fór til móts við Elísa og hafði með sér að gjöf allt það besta sem völ var á í Damaskus. Voru það klyfjar á fjörutíu úlfalda. Hann kom til Elísa, gekk fyrir hann og sagði „Sonur þinn, Benhadad Aramskonungur, sendi mig til að spyrja þig hvort hann muni ná sér af sjúkdómi sínum.“ 10 Elísa svaraði honum: „Farðu og segðu honum: Þú munt ná þér að fullu. Samt hefur Drottinn birt mér að hann muni deyja.“ 11 Hasael sýndi engin svipbrigði og starði á hann en guðsmaðurinn brast í grát. 12 Þá spurði Hasael hann: „Hvers vegna grætur þú, herra?“ Hann svaraði: „Af því að ég veit hvílíku böli þú munt valda Ísraelsmönnum. Þú munt brenna virki þeirra í eldi, höggva æskumenn þeirra með sverði, slá ungbörn þeirra til bana og rista þungaðar konur þeirra á kvið.“ 13 Þá spurði Hasael: „Hvernig gæti þræll þinn, þessi hundur, unnið slík stórvirki?“ Elísa svaraði: „Drottinn hefur sýnt mér þig sem konung yfir Aram.“
14 Hasael hélt frá Elísa og sneri aftur til húsbónda síns sem spurði hann: „Hvað sagði Elísa við þig?“ Hasael svaraði: „Hann sagði mér að þú næðir þér.“ 15 Daginn eftir tók hann teppi, dýfði því í vatn og breiddi það yfir andlit konungs svo að hann dó. Hasael varð konungur eftir hann.

Jóram Júdakonungur

16 Á fimmta stjórnarári Jórams Akabssonar, konungs í Ísrael, á meðan Jósafat var enn Júdakonungur, varð Jóram Jósafatsson konungur.[ 17 Hann var þrjátíu og tveggja ára þegar hann varð konungur og ríkti átta ár í Jerúsalem. 18 Hann breytti á sama hátt og konungar Ísraels, eins og ætt Akabs, enda var dóttir Akabs eiginkona hans. Hann gerði það sem illt var í augum Drottins. 19 Þrátt fyrir það vildi Drottinn ekki eyða Júda vegna Davíðs, þjóns síns, en hann hafði heitið honum að hann skyldi ætíð hafa lampa frammi fyrir augliti Drottins.
20 Á dögum Jórams brutust Edómítar undan valdi Júda og tóku sér sinn eigin konung. 21 Jóram hélt þá til Saír með alla hervagna sína. Um nóttina, þegar hann réðst á Edómíta sem höfðu umkringt hann og foringja vagnliðsins, flýðu liðsmenn hans til búða sinna. 22 Þannig braust Edóm undan valdi Júda og hefur verið sjálfstætt ríki til þessa dags. Á sama tíma braust Líbna[ einnig undan Júda.
23 Það sem ósagt er af sögu Jórams og verkum hans er skráð í annála Júdakonunga. 24 Jóram var lagður til hvíldar hjá feðrum sínum og grafinn hjá þeim í borg Davíðs. Ahasía, sonur hans, varð konungur eftir hann.

Ahasía Júdakonungur

25 Á tólfta stjórnarári Jórams Akabssonar Ísraelskonungs varð Ahasía Jóramsson konungur yfir Júda. 26 Ahasía var tuttugu og tveggja ára þegar hann varð konungur og hann ríkti eitt ár í Jerúsalem. Móðir hans hét Atalja, dóttir Omrí, konungs í Ísrael. 27 Ahasía breytti eins og ætt Akabs og gerði það sem illt var í augum Drottins eins og ætt Akabs því að hann var venslaður[ Akab.
28 Hann fór með Jóram Akabssyni í stríð gegn Hasael Aramskonungi við Ramót í Gíleað. En Aramearnir særðu Jóram konung svo að hann 29 sneri heim til Jesreel. Þar ætlaði hann að láta sárin gróa sem Aramearnir höfðu veitt honum við Rama þegar hann barðist gegn Hasael Aramskonungi. En Ahasía Jóramsson Júdakonungur fór að heimsækja Jóram Akabsson í Jesreel af því að hann var veikur.