1 Þetta eru lögin um sektarfórnina: Hún er háheilög.
2 Sektarfórnardýrinu skal slátrað á sama stað og brennifórnardýrinu og presturinn skal dreypa blóðinu á allar hliðar altarisins.
3 Því næst skal hann færa fram allan mörinn úr fórnardýrinu: rófuna, netjuna sem hylur iðrin, 4 bæði nýrun ásamt nýrnamörnum, sem er innan á mölunum, og lifrarblaðið sem hann skal skilja frá við nýrun. 5 Presturinn skal láta þetta líða upp í reyk af altarinu. Það er eldfórn handa Drottni.
Þetta er sektarfórn.
6 Sérhver karlmaður meðal prestanna má eta þetta. Þess skal neytt á helgum stað og það er háheilagt.
7 Sömu lög gilda um sektarfórn og um syndafórn: Hún kemur í hlut þess prests sem friðþægir með henni. 8 Presturinn sem færir brennifórn fyrir einhvern skal fá húð brennifórnardýrsins sem hann ber fram. 9 Presturinn sem færir fórnina skal fá sérhverja kornfórn sem bökuð er í ofni eða tilreidd í suðupotti eða á pönnu. 10 En allir synir Arons skulu sameiginlega fá þá kornfórn sem hrærð er saman við olíu eða er þurr.
11 Þetta eru lögin um heillafórn sem Drottni er færð:
12 Ætli einhver að færa hana sem þakkarfórn skal hann bera fram ósýrðar, olíublandaðar, kringlóttar kökur, ósýrðar flatkökur smurðar með olíu og kringlóttar kökur úr fínu mjöli, olíublönduðu. 13 Hann skal færa fram gjöf sína með kringlóttum súrdeigskökum sem lokaþakkarfórn.
14 Hann skal færa Drottni eitt brauð af hverri tegund í afgjald sem kemur í hlut prestsins sem stökkvir blóði heillafórnarinnar.
15 Kjöt þakkar- og heillafórnardýrsins skal etið daginn sem hann færir gjöf sína. Ekki má geyma neitt af því til morguns.
16 Ef sláturfórn hans er heitfórn eða sjálfviljug fórn skal neyta fórnarkjötsins daginn sem hann ber fram fórn sína en þess sem eftir verður má neyta daginn eftir. 17 En það sem kann að verða eftir af sláturfórninni á þriðja degi skal brennt í eldi. 18 Verði einhvers af heillafórnarkjötinu neytt á þriðja degi verður því ekki tekið með velþóknun. Það sem hann bar fram tilreiknast honum ekki heldur telst það viðurstyggð. Hver sem neytir þess skal bera sekt sína.
19 Ekki skal neyta kjöts sem hefur komist í snertingu við eitthvað óhreint heldur skal það brennt í eldi.
Sérhver hreinn maður má neyta kjöts af fórnardýri 20 en hver sá sem neytir kjöts af heillafórn sem Drottinn á, þegar hann er óhreinn, skal upprættur úr þjóð sinni.
21 Snerti einhver það sem óhreint er, óhreinan mann, óhreinan fénað eða óhreint skriðkvikindi, og eti síðan af kjöti sláturfórnar, sem Drottinn á, skal sá maður upprættur úr þjóð sinni.“
22 Drottinn talaði við Móse og sagði:
23 „Ávarpaðu Ísraelsmenn og segðu: Þið megið ekki neyta mörs úr nautum, sauðfé eða geitum. 24 Mör úr sjálfdauðum eða dýrrifnum skepnum má nýta til hvers sem vera skal en þið megið ekki neyta hans. 25 Neyti einhver mörs úr fénaði, sem Drottni hefur verið færð eldfórn af, skal sá maður upprættur úr þjóð sinni.
26 Þið skuluð ekki neyta blóðs, hvorki úr fuglum né fénaði, hvar svo sem þið búið. 27 Hver sem neytir nokkurs blóðs skal upprættur úr þjóð sinni.“
28 Drottinn talaði við Móse og sagði:
29 „Ávarpaðu Ísraelsmenn og segðu: Hver sá sem færir Drottni heillafórn skal taka gjöf sína af heillafórninni og færa hana Drottni. 30 Hann skal bera hana fram í höndum sér sem eldfórn handa Drottni.
Hann skal bera fram mörinn ásamt bringunni til að veifa frammi fyrir augliti Drottins 31 en mörinn skal presturinn láta líða upp í reyk af altarinu.
Aron og synir hans skulu fá bringuna 32 en prestinum skuluð þið fá hægra lærið sem hlutdeild í heillafórn ykkar. 33 Sá sona Arons, sem færir fram blóð heillafórnarinnar og mör, skal fá hægra lærið. 34 Bringuna, sem veifað var, og lærið af heillafórn þeirra tek ég af Ísraelsmönnum og gef þau Aroni presti og sonum hans sem ævarandi skyldugreiðslu.
35 Þetta er hluti Arons og sona hans af eldfórnum Drottins daginn sem hann leiðir þá fram til að gegna prestsþjónustu fyrir Drottin. 36 Drottinn hefur boðið Ísraelsmönnum að greiða þeim þetta daginn sem hann smyr þá. Það er ævarandi skyldugreiðsla frá einni kynslóð til annarrar.“
37 Þetta eru lögin um brennifórn, kornfórn, syndafórn, sektarfórn, vígslufórn og heillafórn, 38 lögin sem Drottinn lagði fyrir Móse á Sínaífjalli daginn sem hann bauð Ísraelsmönnum að færa Drottni gjafir sínar í Sínaíeyðimörkinni.