Jakob veitir sonum sínum tólf blessun

1 Þá lét Jakob kalla á syni sína og mælti: Safnist saman, ég ætla að segja ykkur hvað muni henda ykkur á komandi tímum.

2Komið saman og hlýðið á, synir Jakobs,
hlýðið á Ísrael föður yðar.


3Rúben, þú ert frumburður minn,
kraftur minn og frumgróði styrkleika míns,
fremstur að virðingu og fremstur að mætti.
4Þú ólgar sem vatnið,
ekki skaltu fremstur vera
því að þú lagðist í hvílu föður þíns,
vanhelgaðir sæng mína.


5Símeon og Leví eru bræður,
sverð þeirra eru ofbeldistól.
6Ég vil ekki blanda geði við þá,
ekki taka þátt í samkomum þeirra
því að í reiði sinni drápu þeir menn
og í ofsa sínum lömuðu þeir nautin.
7Bölvuð sé reiði þeirra því að hún var römm
og bræði þeirra því að hún var grimm.
Ég skal dreifa þeim í Jakob
og tvístra þeim í Ísrael.


8Júda, þig munu bræður þínir vegsama.
Hönd þín mun vera á hálsi óvina þinna,
synir föður þíns skulu lúta þér.
9Júda er ljónshvolpur,
þú hefur snúið heim frá bráðinni, sonur minn.
Sem ljón leggst hann niður og hvílist
og sem ljónynja, hver þorir að vekja hann?
10Hvorki mun veldissprotinn víkja frá Júda
né stafurinn frá fótum hans.
Honum verður sýnd lotning
og þjóðirnar ganga honum á hönd.
11Hann bindur asna sinn við víntré
og ösnufola sinn við gæðavínvið.
Hann þvær klæði sín í víni
og möttul sinn í vínberjablóði.
12Augu hans eru dekkri en vín
og tennur hans hvítari en mjólk.


13Sebúlon mun búa við sjávarströndina,
við ströndina þar sem skipin leggjast að
og land hans nær allt til Sídon.


14Íssakar er sterkur asni
sem liggur á milli fjárbyrgjanna.
15Hann sá að hvíldarstaðurinn var góður
og landið unaðslegt,
því beygði hann herðar sínar undir byrðar
og gerðist ánauðugur þræll.


16Dan mun rétta hlut þjóðar sinnar
sem hver önnur Ísraels ættkvísl.
17Dan verður höggormur á veginum
og naðra í götunni
sem hælbítur hestinn
svo að kappinn fellur aftur á bak.
18Ég vænti hjálpar þinnar, Drottinn!


19Ræningjar ráðast á Gað
en hann ræðst á þá og rekur á flótta.


20Frá Asser kemur ríkuleg fæða
og hann veitir konungakrásir.


21Naftalí er rásandi hind
sem fæðir fagra kálfa.


22 Jósef er ungur aldinviður,
ungur aldinviður við lind,
greinar hans teygja sig upp yfir múrinn.
23 Bogmenn gerðu áhlaup,
skutu og sóttu að honum
24 en bogi hans er stöðugur
og handleggir hans sterkir.
Styrkurinn kemur frá Jakobs Volduga,
frá Hirðinum, Hellubjargi Ísraels,
25 frá Guði föður þíns sem hjálpar þér,
frá Almáttugum Guði sem blessar þig
með blessun af himnum ofan,
með blessun djúpsins undir niðri,
með blessun brjósta og móðurlífs,
26 með blessun korns og blóma,
með blessun aldinna fjalla,
með unaði eilífra hæða.
Megi hún koma yfir höfuð Jósefs
og hvirfil hans, höfðingja bræðra sinna.


27 Benjamín er gráðugur úlfur.
Á morgnana etur hann bráð
og á kvöldin skiptir hann herfangi.

28 Þetta voru allar tólf ættkvíslir Ísraels og þetta er það sem faðir þeirra sagði við þá. Jakob blessaði þá alla með þeirri blessun sem hverjum þeirra bar.

Jakob deyr og er grafinn

29 Síðan gaf hann þeim þessi fyrirmæli: „Nú þegar ég safnast til míns fólks skuluð þið jarða mig hjá feðrum mínum, í hellinum í landi Efrons Hetíta, 30 í hellinum sem er í Makpelalandi gegnt Mamre í Kanaanslandi. Abraham keypti þennan helli og akur af Efron Hetíta fyrir grafreit. 31 Þar var Abraham jarðaður og Sara, kona hans, þar var Ísak jarðaður og Rebekka, kona hans, og þar jarðaði ég Leu. 32 Akurinn og hellirinn, sem á honum er, voru keyptir af Hetítum.“ 33 Þegar Jakob hafði gefið sonum sínum þessi fyrirmæli lyfti hann fótum sínum upp í hvíluna. Síðan gaf hann upp andann og safnaðist til síns fólks.