Páll skýtur máli sínu til keisarans

1 Þrem dögum eftir að Festus hafði tekið við umdæmi sínu fór hann frá Sesareu upp til Jerúsalem. 2 Æðstu prestarnir og fyrirmenn Gyðinga báru þá sakir á Pál fyrir honum og báðu hann 3 að veita sér að málum gegn honum og sýna sér þá velvild að senda hann til Jerúsalem. En þeir hugðust búa honum fyrirsát og vega hann á leiðinni. 4 Festus svaraði að Páll væri í varðhaldi í Sesareu en sjálfur færi hann bráðlega þangað. 5 „Látið því,“ sagði hann, „ráðamenn ykkar verða mér samferða ofan eftir og lögsækja manninn ef hann er um eitthvað sekur.“
6 Festus dvaldist þar ekki lengur en í átta daga eða tíu. Síðan fór hann ofan til Sesareu. Daginn eftir settist hann á dómstólinn og bauð að leiða Pál fram. 7 Þegar hann kom umkringdu hann Gyðingar þeir sem komnir voru ofan frá Jerúsalem og báru á hann margar þungar sakir sem þeir gátu ekki sannað. 8 En Páll varði sig og sagði: „Ekkert hef ég brotið, hvorki gegn lögmáli Gyðinga, helgidóminum né keisaranum.“
9 Festus vildi koma sér vel við Gyðinga og mælti við Pál: „Vilt þú fara upp til Jerúsalem og hlíta þar dómi mínum í máli þessu?“
10 Páll svaraði: „Ég stend nú fyrir dómstóli keisarans og hér á ég að dæmast. Gyðingum hef ég ekkert rangt gert, það veistu fullvel. 11 Sé ég sekur og hafi framið eitthvað sem dauða sé vert, mæli ég mig ekki undan því að deyja. En ef ekkert er hæft í því sem þessir menn kæra mig um, á enginn með að selja mig þeim á vald. Ég skýt máli mínu til keisarans.“
12 Festus ræddi þá við ráðunauta sína og mælti síðan: „Til keisarans hefur þú skotið máli þínu, til keisarans skaltu fara.“

Páll leiddur fyrir Agrippu og Berníke

13 Nokkrum dögum síðar komu Agrippa konungur og Berníke til Sesareu að bjóða Festus velkominn. 14 Þegar þau höfðu dvalist þar nokkra daga lagði Festus mál Páls fyrir konung og sagði: „Hér er fangi nokkur sem Felix skildi eftir. 15 Þegar ég kom til Jerúsalem báru æðstu prestar og öldungar Gyðinga á hann sakir og heimtuðu hann dæmdan. 16 Ég svaraði þeim að það væri ekki venja Rómverja að framselja nokkurn sakborning fyrr en hann hefði verið leiddur fyrir ákærendur sína og átt þess kost að bera fram vörn gegn sakargiftinni. 17 Þeir urðu nú samferða hingað og lét ég engan drátt á verða heldur settist daginn eftir á dómstólinn og bauð að leiða fram manninn. 18 Þegar ákærendurnir komu fram báru þeir ekki á hann sakir fyrir nein þau illræði, sem ég hafði búist við, 19 heldur áttu þeir í einhverjum deilum við hann um átrúnað sjálfra þeirra og um Jesú nokkurn, látinn mann sem Páll segir lifa. 20 Fannst mér vandi fyrir mig að fást við þetta og spurði Pál hvort hann vildi fara til Jerúsalem og láta dæma málið þar. 21 En hann skaut máli sínu til keisarans og krafðist þess að vera hafður í haldi þar til hans hátign hefði skorið úr. Því bauð ég að hafa hann í haldi þangað til ég gæti sent hann til keisarans.“
22 Agrippa sagði þá við Festus: „Ég vildi sjálfur fá að heyra manninn.“
Hinn svaraði: „Á morgun skalt þú hlusta á hann.“
23 Daginn eftir komu Agrippa og Berníke með mikilli viðhöfn og gengu ásamt hersveitarforingjum og æðstu mönnum borgarinnar inn í málstofuna. Festus bauð þá að leiða Pál inn. 24 Festus mælti: „Agrippa konungur og þið menn allir sem hjá okkur eruð staddir. Þarna sjáið þið mann sem veldur því að allir Gyðingar, bæði í Jerúsalem og hér, hafa leitað til mín. Þeir heimta hástöfum að hann sé tekinn af lífi.
25 Mér varð ljóst að hann hefur ekkert það framið er dauða sé vert en sjálfur skaut hann máli sínu til hans hátignar og þá ákvað ég að senda hann þangað. 26 Nú er mér ekki fullljóst hvað ég á að skrifa keisaranum um hann. Þess vegna hef ég leitt hann fram fyrir ykkur og einkum fyrir þig, Agrippa konungur, svo að ég hafi eitthvað að skrifa að lokinni yfirheyrslu. 27 Því það líst mér fráleitt að senda fanga og tjá eigi um leið sakargiftir gegn honum.“