Önnur sýn: Hornin fjögur

1 Ég leit upp og sá fjögur horn.
2 Og ég spurði engilinn, sem við mig talaði, og sagði: „Hvað er þetta?“ Hann svaraði: „Þetta eru hornin sem tvístruðu Júda, Ísrael og Jerúsalem.“
3 Síðan sýndi Drottinn mér fjóra smiði.
4 „Hvað ætlast þeir fyrir?“ spurði ég. Hann svaraði: „Þetta eru hornin sem tvístruðu Júda svo að enginn gat borið höfuðið hátt. En þeir eru komnir til að skelfa þau og höggva burt horn þeirra þjóða sem lyftu hornum sínum gegn Júdalandi til að tvístra því.“

Þriðja sýn: Maður með mælisnúru

5 Ég leit upp og sá mann sem hélt á mælisnúru. 6 Og ég spurði: „Hvert ert þú að fara?“ Hann svaraði: „Til Jerúsalem til þess að mæla hana og sjá hve löng hún er og breið.“
7 Engillinn, viðmælandi minn, gekk þá fram og annar engill gekk á móti honum. 8 Og við þann engil sagði hann: „Hlauptu til unga mannsins þarna og segðu við hann:
Engir borgarmúrar verða reistir um Jerúsalem.
Slíkur verður sá fjöldi manna og búfjár
sem þar mun dveljast.
9En ég sjálfur, segir Drottinn,
verð sem veggur úr eldi umhverfis hana
og innan hennar verð ég henni til dýrðar.“

Hvatning til útlaganna

10 Burt, burt. Flýið úr Norðurlandinu,
segir Drottinn,
þótt ég hafi tvístrað yður
eins og fjórum höfuðvindum himinsins,
segir Drottinn.
11Burt, Síon. Forðaðu þér,
þú sem dvelst í Babýlon,
12því að svo segir Drottinn allsherjar
sem sendi mig í dýrð sinni
til þjóðanna sem hafa tekið yður herfangi:
Hver sá sem snertir við yður, snertir sjáaldur mitt,
13og þá mun ég hefja upp hönd mína gegn þeim
og þeir skulu verða þeim að herfangi
sem þeir sjálfir hnepptu í ánauð.
Þá verður yður ljóst
að Drottinn allsherjar hefur sent mig.
14Syngdu fagnaðarsöng, dóttirin Síon.
Sjá, ég kem
og mun dveljast með þér,
segir Drottinn.

15 Á þeim degi munu margir heiðingjar ganga Drottni á hönd, gerast hans lýður og búa hjá þér. Þá muntu sjá að Drottinn allsherjar hefur sent mig til þín. 16 Þá mun Drottinn veita Júda arfleifð hennar í Landinu helga og enn gera Jerúsalem að hinni kjörnu borg sinni.
17Allir dauðlegir menn veri hljóðir fyrir Drottni.
Hann er risinn upp frá sínum heilaga bústað.