Jakob leiddur fyrir faraó

1 Jósef gekk nú fyrir faraó og sagði honum að faðir sinn og bræður væru komnir frá Kanaanslandi með sauði sína, nautgripi og allt sem þeir ættu og væru nú í Gósenlandi. 2 Jósef hafði tekið fimm af bræðrum sínum með sér og leiddi þá fyrir faraó. 3 Þegar faraó spurði þá hvaða atvinnu þeir stunduðu þá svöruðu þeir: „Þjónar þínir eru hjarðmenn, bæði við og feður okkar.“
4 Þeir sögðu við faraó: „Við erum komnir til að dveljast í landinu um skeið því að hallærið er svo mikið í Kanaanslandi að þar er ekkert haglendi fyrir sauði okkar. Leyfðu því þjónum þínum að búa í Gósenlandi.“
5 Faraó sagði við Jósef: „Nú þegar faðir þinn og bræður þínir eru komnir til þín 6 stendur Egyptaland þér til reiðu, láttu föður þinn og bræður þína búa þar sem landkostir eru bestir. Þeir mega búa í Gósenlandi og ef þú veist um duglega menn meðal þeirra feldu þeim þá yfirumsjón hjarða minna.“
7 Þá sótti Jósef föður sinn og leiddi hann fyrir faraó. Jakob heilsaði faraó 8 sem spurði hann: „Hversu gamall ertu?“ 9 Jakob svaraði faraó: „Vegferðartími minn er hundrað og þrjátíu ár. Fáir og illir hafa dagar lífs míns verið og ná ekki þeirri áratölu er feður mínir náðu á vegferð sinni.“ 10 Síðan kvaddi Jakob faraó og gekk út frá honum.
11 Jósef fékk föður sínum og bræðrum bústaði og gaf þeim jarðir í Egyptalandi þar sem bestir voru landkostir, í Ramseslandi, eins og faraó hafði boðið. 12 Og Jósef sá föður sínum, bræðrum og öllum ættmennum föður síns fyrir viðurværi í samræmi við stærð fjölskyldnanna.

Jósef kaupir jarðir Egypta handa faraó

13 Í landinu var hvergi brauð að fá og svo mikið var hallærið að Egyptaland og Kanaansland voru að þrotum komin af hungri. 14 Jósef safnaði nú saman öllu silfri, sem til var í Egyptalandi og Kanaanslandi, fyrir korn sem fólkið keypti og Jósef skilaði silfrinu í hús faraós.
15 Þegar silfrið var þrotið í Egyptalandi og í Kanaanslandi flykktust Egyptar til Jósefs og sögðu: „Gefðu okkur brauð eða eigum við að deyja fyrir augum þér af því að silfrið er þrotið?“ 16 Jósef svaraði: „Sé silfrið þrotið komið þá hingað með fénað ykkar og ég skal láta ykkur fá brauð í staðinn.“ 17 Þá fóru þeir með fénað sinn til Jósefs og hann lét þá fá brauð í staðinn fyrir hestana, sauðféð, nautpeninginn og asnana. Það árið sá hann þeim fyrir brauði í skiptum fyrir fénað þeirra.
18 Árið leið og þeir komu til hans næsta ár og sögðu: „Við viljum ekki leyna þig því, herra, að silfrið er allt þrotið og kvikfénaður okkar er þegar í þinni eigu. Það eina sem við höfum að bjóða þér eru líkamar okkar og jarðir. 19 Eigum við að farast fyrir augum þínum, bæði við og jarðir okkar? Taktu okkur og jarðir okkar í skiptum fyrir brauð. Við og jarðir okkar verðum eign faraós ef þú aðeins gefur okkur sáðkorn svo að við höldum lífi og deyjum ekki og jarðirnar leggist ekki í auðn.“ 20 Þá keypti Jósef allar jarðir Egypta handa faraó því að allir Egyptar seldu akra sína þar sem hungrið svarf að þeim. Þannig eignaðist faraó landið. 21 Um allt Egyptaland gerði hann fólkið að þrælum. 22 Jarðir prestanna keypti hann þó ekki því að prestarnir höfðu ákveðnar tekjur frá faraó og þeir lifðu af þeim tekjum sem faraó fékk þeim. Þess vegna þurftu þeir ekki að selja jarðir sínar.
23 Jósef sagði við fólkið: „Nú hef ég keypt ykkur og jarðir ykkar faraó til handa. Hér er sáðkorn handa ykkur svo að þið getið sáð í akrana. 24 Þegar þið uppskerið skuluð þið skila faraó einum fimmta hluta en fjórum fimmtu hlutum skuluð þið halda til útsæðis og matar fyrir fjölskyldur ykkar.“ 25 Þeir svöruðu: „Þú hefur bjargað lífi okkar. Láttu okkur finna náð í augum þínum, herra, og þá skulum við vera þrælar faraós.“ 26 Jósef leiddi það í lög, sem gilda allt til þessa dags, að faraó skyldi fá fimmta hlutann af jörðum Egypta. Aðeins jarðir prestanna urðu ekki eign faraós.

Hinsta ósk Jakobs

27 Ísraelsmenn bjuggu í Egyptalandi, í Gósenlandi, þar settust þeir að, voru frjósamir og þeim fjölgaði mjög.
28 Jakob lifði sautján ár í Egyptalandi og æviár hans urðu hundrað fjörutíu og sjö.
29 Þegar dauðinn nálgaðist lét Ísrael kalla á Jósef, son sinn, og sagði við hann: „Hafi ég fundið náð í augum þínum leggðu þá hönd þína undir lend mína og lofaðu að sýna mér elsku og trúfesti: Jarða mig ekki í Egyptalandi. 30 Ég vil hvíla hjá feðrum mínum og þú skalt flytja mig burt frá Egyptalandi og jarða mig í gröf þeirra.“ Hann svaraði: „Ég mun gera eins og þú hefur sagt.“ 31 „Vinn þú mér eið að því,“ sagði Jakob og hann vann honum eiðinn. Síðan laut Ísrael niður til bænar við höfðalag hvílu sinnar.