Jónatan styður Davíð

1 Davíð flýði nú frá Najót í Rama til Jónatans og spurði: „Hvað hef ég gert? Hvaða glæp hef ég drýgt? Hvernig hef ég brotið af mér gegn föður þínum fyrst hann sækist eftir lífi mínu?“ 2 Hann svaraði honum: „Það skal aldrei verða. Þú munt ekki deyja. Faðir minn gerir ekkert sem máli skiptir án þess að bera það undir mig. Hvers vegna skyldi hann þá leyna mig þessu? Þetta getur ekki verið.“ 3 En Davíð sór og sárt við lagði: „Faðir þinn veit vel að þér þykir vænt um mig. Þess vegna hugsar hann með sér: Jónatan má ekki vita þetta því að þá verður hann dapur. En svo sannarlega sem Drottinn lifir og þú sjálfur lifir, þá er aðeins eitt fótmál milli mín og dauðans.“
4 Þá spurði Jónatan Davíð: „Hvað viltu að ég geri fyrir þig?“ 5 Davíð svaraði: „Á morgun er nýtt tungl. Þá á ég að sitja til borðs með konungi. Leyfðu mér að fara burt svo að ég geti falið mig úti á víðavangi fram á kvöld hinn daginn. 6 Ef faðir þinn saknar mín skaltu segja: Davíð bað mig leyfis að mega bregða sér heim til borgar sinnar, Betlehem, því að þar heldur ættbálkur hans hina árlegu sláturfórnarhátíð. 7 Ef hann segir þá: Gott og vel, þá er mér, þjóni þínum, óhætt. Ef hann æsir sig og reiðist máttu vera viss um að hann hefur illt í huga. 8 Vertu mér nú, þjóni þínum, trúr því að þú hefur ásamt þjóni þínum gert sáttmála við Drottin. En sé ég sekur dreptu mig þá sjálfur. Hvers vegna ættirðu að fara með mig til föður þíns?“ 9 Jónatan svaraði: „Það skal aldrei verða. En þegar ég veit fyrir víst að faðir minn hefur ákveðið að vinna á þér níðingsverk þetta segi ég þér frá því.“
10 Þá spurði Davíð Jónatan: „Hver getur látið mig vita hvort faðir þinn svarar þér illu einu?“ 11 Jónatan sagði þá við Davíð: „Komdu, við skulum ganga út á vellina.“ Síðan gengu þeir saman út á vellina. 12 Þá sagði Jónatan við Davíð: „Ég sver við Drottin, Guð Ísraels: Þegar ég hef komist að því hjá föður mínum, um þetta leyti á morgun eða hinn, að þér sé óhætt sendi ég einhvern til að segja þér það. 13 Ef faðir minn hyggst vinna á þér níðingsverk og ég segi þér ekki frá því og kem þér ekki undan heilum á húfi, þá láti Drottinn Jónatan gjalda þess nú og síðar. Drottinn veri með þér eins og hann hefur verið með föður mínum. 14 Viltu reynast mér trúr eins og Drottinn ef ég lifi, en deyi ég 15 máttu aldrei bregða trúnaði við ætt mína. Þegar Drottinn hefur upprætt sérhvern fjandmann Davíðs af jörðinni verður nafn Jónatans ekki upprætt úr ætt Davíðs.“ 16 Þannig gerði Jónatan sáttmála við ætt Davíðs og sagði: „Drottinn hefni Davíðs á fjandmönnum hans.“
17 Og Jónatan vann Davíð aftur eið við kærleika sinn til hans því að hann elskaði hann eins og sjálfan sig. 18 Síðan sagði Jónatan við hann: „Á morgun er nýtt tungl. Þá verður þín saknað því að fylgst verður með sæti þínu. 19 Á þriðja degi verður þín sárt saknað. Þá skaltu fara þangað sem þú faldir þig í fyrra skiptið og setjast hjá Eselsteini. 20 Þá mun ég skjóta þremur örvum til hliðar við hann eins og ég væri að skjóta í mark. 21 Síðan sendi ég þjón minn til að leita að örvunum. Ef ég kalla hátt til piltsins: Örvarnar liggja hérna megin við þig, sæktu þær, þá skaltu koma. Þá er þér óhætt og ekkert að óttast svo sannarlega sem Drottinn lifir. 22 En ef ég kalla til piltsins: Örvarnar liggja fjær þér, þá skaltu forða þér því að þá hefur Drottinn sent þig burt. 23 En Drottinn er ævinlega vitni okkar um samkomulagið sem við gerðum.“ 24 Því næst faldi Davíð sig úti á vellinum.
Þegar tunglkomudagurinn rann upp settist konungur að snæðingi. 25 Konungur sat þar sem hann var vanur í sætinu við vegginn og Jónatan gegnt honum. Abner sat við hlið Sáls en sæti Davíðs var autt. 26 Sál sagði ekkert þennan dag því að hann hugsaði með sér: „Eitthvað hefur komið fyrir Davíð svo að hann er ekki hreinn. Hann er áreiðanlega ekki hreinn.“ 27 Daginn eftir, á öðrum degi eftir nýtt tungl, var sæti Davíðs enn autt. Þá sagði Sál við Jónatan, son sinn: „Hvers vegna kom sonur Ísaí hvorki í gær né í dag til máltíðarinnar?“ 28 Jónatan svaraði Sál: „Davíð bað mig innilega að fá að fara til Betlehem. 29 Hann sagði: Leyfðu mér að fara því að í borginni verður færð sláturfórn ættar minnar. Bróðir minn sagði mér að koma. Ég fer þangað og heimsæki skyldmenni mín njóti ég velvildar þinnar. Þess vegna kom hann ekki að borði konungs.“
30 Sál reiddist Jónatan og sagði við hann: „Þú, sonur þrjóskrar og þvermóðskufullrar kvensniftar, heldurðu að ég viti ekki að þú stendur með syni Ísaí, sjálfum þér til skammar og móður þinni sem ól þig? 31 Á meðan sonur Ísaí er ofanjarðar ert þú ekki öruggur né heldur konungdómur þinn. Sendu þegar í stað eftir honum því að hann á að deyja.“
32 „Hvers vegna á hann að deyja, hvað hefur hann gert?“ spurði Jónatan föður sinn. 33 Síðan lagði Sál spjótinu til hans og ætlaði að drepa hann. Þá varð Jónatan ljóst að faðir hans hafði ákveðið að drepa Davíð. 34 Jónatan stóð ævareiður upp frá borðum og neytti ekki matar annan dag tunglkomuhátíðarinnar því að hann tók nærri sér að faðir hans hafði auðmýkt Davíð.
35 Morguninn eftir gekk Jónatan út á vellina eins og þeir Davíð höfðu ákveðið og hafði ungan dreng með sér. 36 Hann sagði við drenginn: „Farðu og finndu örvarnar sem ég skýt.“ Drengurinn hljóp af stað og hann skaut ör fram hjá honum. 37 Þegar drengurinn kom þangað sem Jónatan hafði miðað örinni kallaði Jónatan til hans: „Liggur örin ekki lengra frá þér?“ 38 Jónatan kallaði enn fremur á eftir drengnum: „Áfram nú, flýttu þér, stattu ekki kyrr.“ Drengurinn tók örina upp, sneri aftur til húsbónda síns 39 og grunaði ekkert. Jónatan og Davíð vissu einir hvað um var að vera. 40 Síðan fékk Jónatan drengnum, sem með honum var, vopn sín og sagði: „Farðu með þetta til borgarinnar.“ 41 Þegar drengurinn var farinn reis Davíð upp úr fylgsninu við steininn, laut Jónatan þrisvar og varpaði sér til jarðar. Þeir kysstust og grétu báðir en Davíð sýnu meir. 42 Jónatan sagði við hann: „Far þú í friði. Drottinn er ævarandi vitni okkar og afkomenda okkar að því sem við höfum svarið hvor öðrum við nafn hans.“