1Svikin vog er Drottni andstyggð
en rétt vog er honum geðfelld.
2Komi hroki kemur og smán
en hjá hinum hógværu er viska.
3Ráðvendni hreinskilinna leiðir þá
en undirferli lygarans tortímir honum.
4Lítt gagna auðæfi á degi reiðinnar
en réttlæti frelsar frá dauða.
5Réttlæti hins ráðvanda gerir veg hans sléttan
en hinn rangláti hrasar um eigin illsku.
6Réttlæti hinna hreinskilnu frelsar þá
en lygarar ánetjast eigin græðgi.
7Í dauðanum brestur von hins rangláta
og væntingar illvirkjans bregðast.
8Hinn réttláti frelsast úr nauðum,
hinn rangláti kemur í hans stað.
9Með orðum tortímir hinn rangláti náunga sínum
en þekking hinna réttlátu bjargar þeim.
10Borgin fagnar gæfu réttlátra
og þegar ranglátir menn farast gjalla gleðióp.
11Blessun hinna réttsýnu reisir borgina
en orð ranglátra steypa henni.
12Óvitur maður sýnir náunga sínum fyrirlitningu
en vitur maður þegir.
13Rógberinn ljóstrar upp leyndarmáli
en hinn þagmælski virðir trúnað.
14Án stjórnar tortímist herinn
en séu ráðgjafar margir getur allt farið vel.
15Illa fer fyrir þeim sem gengur í ábyrgð fyrir annan mann,
sá sem forðast handsöl er óhultur.
16Yndisleg kona hlýtur sæmd,
hinn ötuli hlýtur auð.
17Kærleiksríkur maður vinnur sjálfum sér gagn,
harðlyndur maður vinnur sér mein.
18Hinn rangláti eignast sýndarávinning
en sá sem réttlæti sáir hlýtur ósvikin laun.
19Að stunda réttlæti leiðir til lífs,
að elta hið illa leiðir til dauða.
20Fláráðir eru Drottni andstyggð
en hinir vammlausu yndi hans.
21Víst er að hinn illi sleppur ekki við refsingu
en hinir réttlátu eru óhultir.
22 Eins og gullhringur í svínstrýni
er fríð kona sem enga háttvísi kann.
23 Óskir hinna réttlátu leiða aðeins til góðs
en vonir ranglátra kalla yfir sig reiðidóm.
24 Einn miðlar öðrum af örlæti og eignast æ meira,
annar heldur í meira en rétt er og verður þó enn snauðari.
25 Örlátur maður hlýtur ríkulega umbun
og sá sem gefur öðrum að drekka fær þorsta sínum svalað.
26 Fólkið formælir þeim sem heldur í kornið
en blessun kemur yfir þann sem býður það falt.
27 Sá sem leitar góðs leitar velþóknunar
en sá sem sækist eftir illu verður fyrir því.
28 Sá fellur sem treystir á auð sinn
en hinir réttlátu þrífast sem trjálauf.
29 Sá sem spillir heimili sínu mun erfa vindinn
en heimskinginn verður þræll hins vitra.
30 Ávöxtur réttlætisins er lífstré
og hinn vitri eignast hylli manna.
31 Fái hinn réttláti endurgjald hér á jörðu,
hvað þá um hinn rangláta og syndarann?