Hjálpræði Drottins

1Hlýðið á mig, þér sem sækist eftir réttlæti,
þér sem leitið Drottins.
Lítið á klettinn sem þér voruð höggnir af
og brunninn sem þér voruð grafnir úr.
2Lítið á Abraham, föður yðar,
og Söru sem ól yður,
því að hann var einn þegar ég kallaði hann
og ég blessaði hann og jók kyn hans.
3Því að Drottinn huggar Síon,
huggar allar rústir hennar,
gerir eyðimörk hennar sem Eden
og auðn hennar eins og garð Drottins.
Í henni verður gleði og fögnuður,
þakkargjörð og hljóðfærasláttur.
4Hlýðið á mig, þjóðir,
og hlustið á mig, lýðir,
því að frá mér mun kenning út ganga
og réttur minn verður þjóðunum ljós.
5Brátt nálgast réttlæti mitt,
hjálpræði mitt kemur
og armar mínir munu færa þjóðunum rétt,
eyjarnar vænta mín
og bíða arms míns.
6Hefjið augu yðar til himins
og virðið fyrir yður jörðina hér niðri.
Himinninn mun leysast sundur sem reykur,
jörðin fyrnast sem fat
og íbúar hennar deyja sem mý.
En hjálpræði mitt er ævarandi
og réttlæti mitt líður ekki undir lok.
7Hlýðið á mig, þér sem þekkið réttlæti,
þjóðin sem ber lögmál mitt í hjarta sínu.
Óttist ekki spott manna,
hræðist ekki smánaryrði þeirra,
8því að mölur mun éta þá sem klæði
og maur éta þá eins og ull.
En réttlæti mitt er ævarandi
og hjálpræði mitt varir frá kyni til kyns.

Sköpun og endurlausn

9Vakna þú, vakna,
íklæð þig styrk, þú armur Drottins,
vakna þú eins og í árdaga,
á tímum löngu genginna kynslóða.
Varst það ekki þú sem hjóst Rahab
og lagðir drekann í gegn?
10Varst það ekki þú sem þurrkaðir upp hafið,
vötnin í hinu mikla frumdjúpi,
sem gerðir hafdjúpið að vegi
svo að hinir endurleystu kæmust yfir?
11Hinir endurkeyptu Drottins snúa aftur
og koma fagnandi til Síonar.
Eilíf gleði fer fyrir þeim,
fögnuður og gleði fylgir þeim,
en sorg og sút leggja á flótta.
12Ég hugga yður, ég sjálfur.
Hver ert þú þá sem óttast dauðlega menn
og mannanna börn sem falla sem grasið
13en gleymir Drottni, skapara þínum,
sem þandi út himininn og lagði grunn að jörðinni?
Þú óttast heift kúgarans sérhvern dag,
að hann ákveði að eyða þér.
En hvar er þá heift kúgarans?
14Brátt verður bandinginn leystur,
hann mun ekki deyja í dýflissu
og ekki skorta brauð.
15Ég er Drottinn, Guð þinn,
sá sem æsir hafið svo að brimið gnýr.
Drottinn allsherjar er nafn hans.
16Ég lagði þér orð mín í munn,
skýldi þér í skugga handar minnar,
þegar ég þandi út himininn,
grundvallaði jörðina
og sagði við Síon: Þú ert lýður minn.

Guð ríkir að nýju í Jerúsalem

17Vakna þú, vakna,
rís upp, Jerúsalem,
þú sem varðst að drekka bikar reiðinnar
sem Drottinn rétti að þér.
Þú drakkst vímubikarinn í botn.
18Af öllum þeim sonum sem Síon ól
leiddi hana enginn,
af öllum þeim sonum sem hún fóstraði
tók enginn í hönd hennar.
19Þetta tvennt henti þig,
hver sýnir þér hluttekningu?
Glötun og tortíming,
hungur og sverð,
hver huggar þig?
20Synir þínir lágu í öngviti
á hverju götuhorni
eins og hirtir veiddir í net,
fullir af reiði Drottins,
af hirtingu Guðs þíns.
21Hlustaðu því á þetta, auma borg,
þú sem ert drukkin, þó ekki af víni.
22 Svo segir Drottinn, Guð þinn,
Guð þinn sem ver málstað þjóðar sinnar:
Nú tek ég vímubikarinn úr hendi þér,
skál reiði minnar,
af henni skaltu ekki framar bergja.
23 Ég fæ hana þeim í hendur sem kúguðu þig
og sögðu við þig:
„Leggstu niður svo að vér getum troðið á þér.“
Og þú gerðir bak þitt eins og völl,
eins og veg fyrir vegfarendur.